Svipmynd af vettvangi. Ljósm. Jón Trausti Markússon.

Dröfn laus af strandstað

Rannsóknarskipið Dröfn strandaði í Þorskafirði í Reykhólahreppi í gær. Landhelgisgæslunni barst tilkynning þess efnis um þrjúleytið og þyrla var send á staðinn. Gæslan mat aðstæður á vettvangi góðar. Dröfn virtist óskemmd og engin mengun var á strandstað. Einnig mat gæslan aðstæður þannig engin hætta væri mönnum búin. Áhöfn Drafnar hófst því handa við að reyna að losa skipið og hugðist koma því á flot á næsta hálfóði, sem var skömmu eftir miðnætti. Björgunarsveitarmenn frá Björgunarsveitinni Heimamönnum sigldu að skipinu á björgunarbátnum Hafdísi og voru skipverjum innan handar, en Landhelgisgæslan fylgdist náið með gangi mála.

Vel gekk að ná Dröfn af strandstað á flóðinu og komst skipið á flot klukkan 1:18 í nótt, samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni. Skipið virtist þá lítið sem ekkert skemmt. Eftir að Dröfn losnaði var henni siglt aðeins út fjörðinn. Þar var akkerum kastað og áhöfn skipsins mun halda rannsóknum sínum áfram.

Líkar þetta

Fleiri fréttir