Bæta stjórnsýslu í kjölfar athugasemda

Eins og Skessuhorn greindi frá laust eftir mánaðamót gerði Umboðsmaður Alþingis alvarlegar athugasemdir við afgreiðslu Borgarbyggðar á erindum Þorsteins Mána Árnasonar. Í bréfinu ávítaði umboðsmaður sveitarfélagið fyrir óeðlilegar tafir á svörum við erindum Þorsteins Mána, að sveitarfélagið hafi beint samskiptum sínum við hann til utanaðkomandi lögmanns, sem og óeðlilegar tafir á svörum við fyrirspurnum umboðsmanns vegna málsins. Byggðarráð Borgarbyggðar bókaði um málið á fundi sínum 21. júlí síðastliðinn. „Byggðaráð Borgarbyggðar tekur ábendingar Umboðsmanns Alþingis alvarlega og mun leitast við að færa til betri vegar þau atriði innan stjórnsýslu sveitarfélagsins sem Umboðsmaður Alþingis bendir á í bréfi sínu að megi betur fara,“ segir meðal annars í bókun byggðarráðs sem segir að í því sambandi þurfi að leggja sérstaka áherslu á að yfirfara verkeferla við móttöku og skráningu erinda og tryggja að unnið sé eftir þeim. Í öðru lagi að yfirfara reglur um tímamörg um viðbrögð við erindum og tryggja að þau tímamörk verði virt. Í þriðja lagi að yfirfara starfsreglur um skilvirkni ákvarðanatöku og í fjórða lagi að yfirfara með öllum hlutaðeigandi þær reglur sem innanríkisráðuneytið hefur gefið út um ritun fundargerða. „Byggðaráð felur sveitarstjóra að leggja drög að aðgerðaáætlun í þessu skyni. Aðgerðaáætlunin verði kynnt fyrir byggðaráði þegar hún sé fullmótuð,“ segir í bókun byggðarráðs.

Líkar þetta

Fleiri fréttir