Theresa Jester, forstjóri Silicor Materials, á fjölmiðlafundi á Hótel Glym síðastliðið haust. Ljósm. úr safni.

Segjast engin tengsl hafa við Burbanks Capital

Forsvarsmenn Silicor Materials segja fyrirtækið engin tenstl hafa við hollenska félagið Burbanks Capital, félagið sem hyggst fjármagna byggingu nýs einkasjúkrahúss í Mosfellsbæ. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu. Þar segir enn fremur að Burbanks Capital sé ekki í hópi þeirra fjárfesta, íslenskra sem erlendra, sem standi að uppbyggingu fyrirhugaðs sólarkísilvers Silicor á Grundartanga.

Tilefni tilkynningarinnar er það að í gær kom fram í fréttum RÚV að hollenska félagið hefði árið 2014 undirritað samning við Silicor Materials í tengslum við uppbyggingu áðurnefnds sólarkísilvers. Þar var vísað á heimasíðu Burbanks Capital

Forsvarsmenn Silicor segjast aftur á móti aldrei hafa gert neina samninga við félagið hollenska.

 

Fréttatilynningu frá Silicor Materials má hér lesa í heild sinni:

Að gefnu tilnefni vill Silicor Materials koma því á framfæri að fyrirtækið hefur engin tengsl við Burbanks Capital. Að baki uppbyggingu sólarkísilvers Silicor á Grundartanga standa margir öflugir fjárfestar, bæði íslenskir og erlendir, en Burbanks Capital er ekki í þeim hópi.

Íslenskir fjölmiðlar hafa að undanförnu fjallað um áform Burbanks Capital um uppbyggingu og rekstur einkarekins sjúkrahúss í Mosfellsbæ. Í fréttum Ríkisútvarpsins í gær, þar sem fjallað var um fyrirtækið, kom fram að á heimasíðu Burbanks Capital segi að fyrirtækið hafi samið við Silicor Materials í tengslum við uppbyggingu sólarkísilvers á Grundartanga í Hvalfirði. Silicor hefur enga samninga gert við Burbanks Capital.

Silicor Materials er bandarískt fyrirtæki sem nú undirbýr uppbyggingu sólarkísilvers á Grundartanga í Hvalfirði með aðkomu íslenskra og alþjóðlegra fjárfesta. Þar verður framleiddur sólarkísill með nýrri og umhverfisvænni aðferð sem nýttur verður í sólarhlöð sem virkja rafmagn úr sólarorku. Allar nánari upplýsingar um sólarkísilver Silicor er að finna á vefsíðunni www.silicor.is.

Líkar þetta

Fleiri fréttir