Eldur í Norðurál í nótt

Eldur kom upp á starfsvæði álvers Norðuráls á Grundartanga í nótt. Gat kom á pott í kerskála álversins og ál lak niður í kjallara. Álið rann að Bobcat lyftara, sem þar var staðsettur, með þeim afleiðingum að kviknaði í honum. Slökkvilið Akraness og Hvalfjarðarsveitar var kallað á svæðið klukkan 00:30.

Að sögn Björns Þórhallssonar varaslökkviliðsstjóra gekk slökkvistarf greiðlega fyrir sig. „Aðgerðir stóðu yfir í klukkutíma eða svo og þetta gekk bara mjög vel,“ segir hann en bætir því við að Bobcat lyftarinn sem kviknaði í sé ónýtur. „Lyftarinn brann til kaldra kola. Það var mjög erfitt að komast að honum og því lögð áhersla á gæta þess að eldurinn dreifði sér ekki,“ segir hann.

Einn starfsmanna Norðuráls sem kom að slökkvistarfinu var fluttur á sjúkrahúsið á Akranesi. „Hann var fluttur á spítala vegna hósta og við töldum rétt að láta lækni kíkja á hann. En það reyndist sem betur fer ekki vera neitt alvarlegt,“ segir Björn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir