Kræklingaréttur. Ljósm. úr safni.

Varað við tínslu á skelfiski

Í tilkynnigu frá Matvælastofnun er sagt frá því að Alexandrium og Dinophysis þörungar hafi greinst undanfarið í sjósýnum sem tekin hafa verið í Hvalfirði og Breiðafirði en einnig í Mjóafirði og Steingrímsfirði. Útbreiðsla þörunganna annars staðar við strendur landsins er ekki þekkt. Því vill MAST vara við tínslu á kræklingi, eða bláskel, og annarra skeltegunda við landið. Þekkt er sú þumalfingursregla að ekki skuli tína skelfisk til neyslu þá mánuði sem ekki innihalda „r“ í nafni sínu. Sú regla er því í fullu gildi.

„Alexandrium þörungar geta valdið PSP eitrun og Dinophysis þörungar DSP eitrun,“ segir í tilkynningu MAST. PSP eitrun getur valdið lömun í mönnum og koma eitrunareinkennin fram tveimur til tólf klukkustundum eftir neyslu. Einkenni eru allt frá doða í munni til lömunar og getur PSP eitrun í alvarlegustu tilfellum valdið dauða vegna öndunarlömunar. Ekki hafa komið upp tilfelli PSP eitrunar í mönnum á Íslandi svo vitað sé.

Einkenni DSP eitrunar eru einkum á meltingarveg með tilheyrandi kviðverkjum, ógleði, uppköstum og niðurgangi. Einkennin koma fram fljótlega eftir neyslu og líða hjá innan nokkurra daga.

Líkar þetta

Fleiri fréttir