Drónamynd tekin yfir hótelið og nærliggjandi svæði. Lengst til hægri á myndinni er nýja viðbygging hótelsins.

Stækkun Hótel Húsafells er lokið

Föstudaginn 15. júlí var ár liðið frá opnun Hótel Húsafells. Reksturinn hefur gengið vel þennan tíma og oft verið fullbókað á hótelinu. Á afmælisdaginn voru vaskir iðnaðarmenn að leggja lokahönd á 12 herbergja stækkun við hótelið. „Þeir hafa unnið enn eitt kraftaverkið og lokið góðu verki,“ segir Bergþór Kristleifsson framkvæmdastjóri í samtali við Skessuhorn. „Vinna við stækkunina hófst eftir páska og hefur gengið hratt og vel fyrir sig. Veðrið lék við okkur á byggingartímanum, en til gamans má geta þess að þann tíma sem fyrri áfanginn var í smíðum, komu 27 sinnum slæm veður sem sum hver töfðu vinnuna. Ég vil færa þeim mínar bestur þakkir og segi einfaldlega takk til þessara rösku iðnaðarmanna sem hér hafa lokið verki: Eiríkur, Kiddi og allir ykkar menn, Arnar rafvirki, Dóri pípari, Finnbogi málari, Sindri garðyrkjumeistari, Meistaramúr, Unnsteinn hleðslumaður, Steini og Palli Guðmunds og allir hinir. Takk fyrir fullskapað Hótel Húsafell,“ segir Bergþór.

Fréttin birtist fyrst í Skessuhorni miðvikudaginn 20. júlí síðastliðinn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir