Grímshús í Brákarey í Borgarnesi. Ljósm. mm.

Sjö milljónir til endurbyggingar Grímshúss

 

Samningur um styrk frá Minjastofnun Íslands var lagður fram á fundi byggðarráðs Borgarbyggðar 7. júlí síðastliðinn. Styrkurinn er sjö milljónir króna og skal hann renna óskiptur til endurbyggingar og framkvæmda við Grímshúsið í Brákarey. Samningurinn var undirritaður 1. júní síðastliðinn og er byrjað að framkvæma út á styrkupphæðina.

Húsið var byggt árið 1942 af útgerðarfélaginu Grími ehf. og átti að hýsa veiðarfæri og skrifstofur síldarútgerðar í Borgarnesi. Skömmu síðar hvarf síldin af miðunum og halla tók undan fæti í rekstrinum. Til stóð fyrir nokkrum árum að rífa húsið enda var það illa farið, en þau tíðindi féllu mörgum eldri Borgnesingum illa. Snorri Þorsteinsson fyrrum fræðslustjóri ritaði þá grein í Skessuhorn þar sem hann hvatti samfélagið til að varðveita húsið. Í kjölfar þess var Grímshúsfélagið stofnað árið 2011. Hafa félagsmenn allar götur síðan beitt sér fyrir endurbyggingu hússins.

Samkvæmt framkvæmdaáætlun félagsins fyrir árið 2016 stendur ýmislegt til. Nú er byrjað að klæða suðurhlið hússins, söguð gluggaop á þá hlið og sett hurð. Þá verður einnig unnið við anddyri hússins. Loks á að vinna við gólf, einangrun, hitalögn, steypu og holræsi. Raflögn á að leggja í loft hússins, einangra þakið og klæða loftið. Að sögn Sigvalda Arasonar stjórnarmanns í Grímshússfélaginu munar mikið um að fá þennan styrk frá Minjastofnun.

Líkar þetta

Fleiri fréttir