Kjúklingabringa.

Kallar eftir ákvæði um heilbrigðismál

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir hefur sent Alþingi bréf þar sem hann gerir athugasemdir við þingsályktunartillögu um staðfestingu samnings Íslands og ESB um viðskipti með landbúnaðarvörur. Hann gerir athugasemdir við að í tillögunni sé ekki fjallað beinlínis um heilbrigðismál sem snerta innflutning á ferskum landbúnaðarvörum, aðeins um tolla og tollkvóta á landbúnaðarvörur til og frá Íslandi. „Engu að síður er rétt að vekja athygli á því að aukinn innflutningur á ferskum landbúnaðarvörum hingað til lands getur haft í för með sér ákveðin heilbrigðisvandamál sem íslensk yfirvöld þurfa að vera meðvituð um og tilbúin að bregðast við,“ segir í bréfinu.

Sóttvarnalæknir vísar í álit Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins þess efnis að útbreiðsla ýmissa sýkla og sýklalyfjaónæmra baktería sé ein helsta heilbrigðisógn sem steðjar að heiminum í dag. Margir þættir stuðli að þeirri útbreiðslu og einn þáttur sé dreifing með ferskum matvælum, einkum fersku alifuglakjöti. „Á Íslandi hefur tíðni matarborinna sýkla hjá monnum og sýklalyfjaónæmi verið umtalsvert minna en í flestum nágrannalöndum. Með auknum innflutningi á ferskum landbúnaðarvörum, einkum alifuglakjöti er hætt við að tíðni matarborinna sýkinga muni aukast hér á landi sem og útbreiðsla sýklalyfjaónæmra baktería,“ segir í bréfi sóttvarnalæknis. Hann telur því mikilvægt að samningur Íslands við ESB um viðskipti með ferska matvöru taki mið af þessum þáttum. Setja þurfi í samninginn ákvæði sem gefi Íslendingum möguleika á að takmarka innflutning á vörum sem sýnt þykir að auka muni ógn við almennt heilbrigði hér á landi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir