Bjargarsteinn Mathús í Grundarfirði.

Eitt ár síðan Bjargarsteinn var opnaður

„Hér eru allir bara vinnumenn, jafningjar. Ég er einn af þeim sem heldur þessu gangandi og ég stýri þessu með konunni minni, Selmu Rut Þorkelsdóttir,“ segir Guðbrandur Gunnar Garðarsson, vinnumaður og kokkur á Bjargarsteini í Grundarfirði, í samtali við Skessuhorn. Nú er að fyrsta ár Bjargarsteins að líða undir lok en staðurinn var opnaður um verslunarmannahelgina 2015. „Það hefur gengið rosalega vel og í raun kom það á óvart, sérstaklega hvað veturinn var góður. Það er ekki alltaf fullt hús en fólk er duglegt að koma. Heimamenn hafa líka verið að koma nokkuð mikið en þetta eru þó eðlilega mest ferðamenn,“ segir Gunnar. „Við höfðum ekki áhyggjur af þessum stað þó staðsetningin sé ekki í alfaraleið. Við viljum líka ekki þennan „McDonalds fíling“ þar sem fólk er að detta inn í leit að skyndibita. Þeir sem vilja fínan mat leita uppi slíka staði og staðsetning skiptir þá ekki miklu,“ bætir hann við.

 

Leggja áherslu á nánd við gesti

Á Bjargarsteini er fyrst og fremst lagt upp með að þjónustan sé góð og að upplifun gesta sé sem best. Innandyra er heimilislegur andi þar sem gamaldags stíll hússins fær að njóta sín. „Við viljum hafa þetta lítið og heimilislegt þar sem áherslan er á nándina við gesti. Ég vil ekki endilega hafa alltaf troðið hús heldur frekar hafa tækifæri til að kynnast gestunum og spjalla við þá. Staðurinn er eiginlega orðinn stærri en við lögðum upp með í byrjun, svoleiðis er það alltaf,“ segir Gunnar og hlær.

Aðspurður hvernig matur sé í boði segir Gunnar fiskréttina vera í aðalhlutverki. „Við erum með lítinn matseðli sem við skiptum út reglulega. Venjulega eru þrír til fjórir fiskréttir og einn eða tveir kjötréttir, ekki neinn skyndibitaréttur,“ segir Gunnar og bætir því við að hráefni sé að mestu keypt úr héraði. „Við viljum leggja áherslu á að kaupa beint frá bónda og eru flest okkar hráefni héðan af Snæfellsnesi.“

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir