Alaskalúpína kom sennilega fyrst til Íslands árið 1895 en var flutt inn til landgræðslu um miðja síðustu öld. Nú þykir mörgum mikilvægt að hemja útbreiðslu plöntunnar. Myndin sýnir lúpínuslátt í Stykkishólmi. Ljósm. nsv.is

Betri árangur af slætti á lúpínu en eitrun

Í liðinni viku kom út tímaritið Náttúrufræðingurinn sem Hið íslenska náttúrufræðifélag gefur út. Í ritinu birtist niðurstöður tilraunar um áhrif sláttar og eitrunar á lúpínubreiður og gróðurfar sem Stykkishólmsbær og Náttúrustofa Vesturlands hafa unnið að síðustu fimm árin. Höfundar greinarinnar eru Kristín Svavarsdóttir, Menja von Schmalensee, Ásta L. Aradóttir, Anne Bau og Róbert A. Stefánsson. Ástæða þess að hafist var handa við tilraunina er sú að árið 2007 leituðu íbúar Stykkishólms til bæjarstjórnar vegna áhyggja af vaxandi útbreiðslu lúpínunar innan bæjarmarkanna. Bæjarstjórnin sneri sér í kjölfarið til Náttúrustofu Vesturlands sem gerði sumarið 2008 úttekt á á útbreiðslu lúpínu og annarra ágengra tegunda eða mögulegra ágengra plantna í landi sveitarfélagsins. Í úttektinni kom í ljós að lúpínu var að finna á 148 stöðum í sveitarfélaginu og þakti tíu hektara eða um 1% af heildarflatarmáli sveitarfélagsins. Náttúrustofan lagði til að Stykkishólmsbær myndi reyna að uppræta lúpínuna með skipulögðum hætti. Stykkishólmsbær fór í markvissar aðgerðir til að stemma stigu við útbreiðslu plöntunnar en samhliða því var ákveðið að kanna árangur tveggja mismunandi aðferða. Annars vegar með að eyða lúpínu með slætti eða eitrun en ásamt því var svæði þar sem lúpínan var látin óáreitt til þess að sjá muninn.

 

Sláttur skilar betri árangri

Eins og áður segir stóð tilraunin í fimm ár eða frá 2010 til 2015. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að bæði væri hægt að slá og eitra fyrir lúpínunni með góðum árangri. Niðurstaðan var samt sú að slátturinn sé árangursríkari leið til þess að eyða lúpínunni fremur en eitrunin. Í niðurstöðunum kemur fram að einnig þarf að hafa í huga að lúpínan breytir gróðurfari og í einhverju tilfellum þurfi að fara í frekar aðgerðir til þess að endurheimta ákveðna gerð vistkerfis.

Í lok greinarinnar kemur fram að Stykkishólmsbær hafi með aðgerðum sínum sýnt mikilvægt fordæmi í aðgerðum gegn ágengum plöntum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir