Þeir Finnur Þórðarson, Márus Líndal Hjartarson og Karvel Karvelsson standa að versluninni Bresabúð sem opnuð verður í ágúst.

Bresabúð verður opnuð á Akranesi í ágúst

Þar sem áður voru seld húsgögn í versluninni BjargI að Kalmannsvöllum 1a er nú unnið við að setja upp hillur og búnað í húsnæðið svo ný verslun geti opnað. „Við erum að fara opna verslun sem er hugsuð fyrir almenning en þó að miklu leyti fyrir iðnaðarmenn. Við munum selja raflagnaefni, pípulagnaefni, hreinlætistæki, málningu og málningavörur,“ segir Karvel Karvelsson annar eigenda verslunarinnar.

„Við erum tveir sem stöndum að þessu en með mér er Márus Líndal Hjartarson og einnig vinnur Finnur Þórðarson að þessu verkefni með okkur. Okkur fannst vanta verslun sem væri að sinna iðnaðarmönnum á svæðinu og byði upp á vottaða og góða vöru sem hægt væri að treysta. Aðalbirgjar okkar eru þrír, Reykjafell, Tengi og Slippfélagið en það eru allt rótgróin félög sem bjóða upp á vandaða og þekkta vöru. Í samtölum okkar við iðnaðarmenn, þegar við vorum að kanna markaðinn, heyrðum við að þeir tóku mjög vel í hugmyndir okkar. Við ákváðum því að fara í það að stofna verslunina og ætlum við að leggja áherslu á að þjónusta Skagamenn, Borgfirðinga og aðra Vestlendinga,“ segir Karvel.

Verslunin mun bera nafnið Bresabúð. „Nafnið er vísun í írskan menningararf okkar Skagamanna en einnig fannst okkur orðið „búð“ hafa sterka og rótgróna tilvísun í verslun og minna á gamla tíma. Við hér á Akranesi þekkjum t.d. verslanir eins og Axelsbúð og Einarsbúð. Við stefnum að því að opna Bresabúð í ágúst en getum ekki alveg staðfest hvenær nákvæmlega það verður. Við vonumst bara eftir góðum viðtökum þegar við förum af stað og hlökkum til að þjónusta Skagamenn og aðra Vestlendinga,“ segir Karvel að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir