Skólahúsið í Ólafsdal í Gilsfirði, byggt 1896.

Allt á fullt í Ólafsdal á næsta ári

Skessuhorn greindi í ágúst í fyrra frá fyrirhugaðri uppbyggingu í Ólafsal. Undirritað var samkomulag ríkissjóðs við Minjavernd um viðtöku eigna og lands í Ólafsdal í Gilsfirði. Minjavernd var falið að endurreisa byggingar og hafa umsjón með menningarlandslagi á svæðinu. Minjavernd tók enn fremur að sér að endurbyggja gamla skólahúsið og önnur hús sem enn standa í Ólafsdal, auk þess að endurgera þau hús sem þar stóðu áður og tengjast skólastarfi þar. „Alls munu endurbyggðar 8-9 byggingar sem voru í Ólafsdal. Þar var fastmælum bundið að sögu staðarins og menningarminjum verði áfram gerð góð og aukin skil og mun Ólafsdalsfélagið gegna þar lykilhlutverki. Jafnframt verður frjálst aðgengi almennings tryggt, enda var Ólafsdalsskólinn þjóðskóli í þeim skilningi að þangað komu nemendur hvaðanæva að af landinu og áhrif hans voru mikil á landsvísu. Þær hugsjónir og trú á land og lýð sem endurspegluðust í allri starfsemi Ólafsdalsskólans eiga nú mikið erindi við íslensku þjóðina. Er stefnt að því að endurreisn Ólafsdals verði lokið fyrir 140 ára afmæli Ólafsdalsskólans árið 2020.  Áætlaður kostnaður er um 400 milljónir króna,“ segir í tilkynningu frá Ólafsdalsfélaginu.

 

Unnið að deiliskipulagi svæðisins

Um þessar mundir vinnur Landvernd ehf. að deiliskipulagi fyrir Minjavernd vegna þeirrar uppbyggingar sem framundan er. Skráning fornleifa á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði er einnig hafin í umsjón Birnu Lárusdóttur, fornleifafræðingi hjá Fornleifastofnun Íslands. „Munu framkvæmdir fara í fullan gang á næsta ári,“ segir í tilkynningunni.

Enn fremur er væntanleg skýrsla um ræktunarminjar í Ólafsdal, unnin er af prófessor Bjarna Guðmundssyni og Ragnhildi Sigurðardóttur umhverfisfræðingi. Þá er nú haldið áfram með vinnu við fræðslustíg og kortlagningu gönguleiða út frá Ólafsdal o.fl. „Til að tryggja heilsársstarfsemi í Ólafsdal og nýta þær fjárfestingar sem lagðar verða í staðinn er síðan mikilvægt að bæta veginn inn Ólafsdalshlíðina samhliða uppbyggingunni, um 6 km vegalengd,“ segir í tilkynningu.

Í Ólafsdalsfélaginu eru á fjórða hundrað félagar. Þeir sem vilja kynna sér félagið eða staðinn er bent á heimasíðu félagsins, www.olafsdalur.is. Þeim sem áhuga hafa á að ganga í Ólafsdalsfélagið er bent á að hafa samband við Rögnvald Guðmundsson formann, rognvaldur@rrf.is eða í síma 693-2915.

Líkar þetta

Fleiri fréttir