Dráttarbáturinn Knolli BA-8 (til hægri í mynd, rauður að lit) missti stýrið þegar straumurinn tók í skólplögnina þar sem draga átti hana frá Seleyri að hreinsunar- og dælustöðinni í Brákarey.

Einn missti stýrið og annar fékk í skrúfuna

Síðastliðinn miðvikudag hófst vinna við að koma fyrir nýrri skólplögn sem liggja á frá hreinsunar- og dælustöðinni í Brákarey í Borgarnesi og út á fjörðinn. Lögnin er 450 millimetrar í þvermál og 670 metra löng. Starfsmenn Ístaks sjá um að koma lögninni fyrir í verktöku fyrir Veitur ohf. Gekk framkvæmdin á miðvikudag ekki eins og best verður á kosið. Hvert óhappið rak annað og endaði með því að menn urðu frá að hverfa og sökkva lögninni. „Við vorum að leggja aðal útræsið frá stöðinni við mjög erfiðar og krefjandi aðstæður í firðinum. Þarna eru miklir straumar og við náðum ekki að ljúka þessari aðgerð í gærkvöldi,“ segir Árni Geir Sveinsson hjá Ístaki. „Einn dráttarbátanna missti stýrið eiginlega bara beint fyrir framan lagnaleiðina og annar bátur fékk í skrúfuna,“ bætir hann við. Því var brugðið á það ráð að sökkva skólplögninni. „Við ákváðum að sökkva lögninni þar sem við vorum með hana. Það var ekki þorandi að halda áfram nema með öllum þeim tækjum og tólum sem við lögðum af stað með í upphafi og áttu að vera hluti af þessari framkvæmd allt til enda,“ segir Árni.

Hann segir að lögnin hafi skemmst lítillega þegar henni var sökkt til botns eftir að menn lentu í þessum erfiðleikum. „Hún varð fyrir minniháttar skemmdum en það er ekkert alvarlegt. Við lögum hana bara en þurfum eflaust að fara með lögnina til baka á Seleyrina fyrst og gera við hana þar,“ segir Árni en bætir því við að það verði gert innan tíðar. „Við byrjum strax í dag að undirbúa að hefjast handa aftur, það er ekki eftir neinu að bíða og lítið mál að lyfta lögninni upp aftur,“ segir hann. Ístaksmenn láta óhapp gærdagsins ekki slá sig út af laginu. „Þetta er bara hluti af verkefninu, það var alltaf ákveðin áhætta fólgin í þessu,“ segir Árni að lokum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.