Á Café Kaju á mánudaginn var. Karen Jónsdóttir og Albert Eiríksson standa. Fyrir framan sitja Kjartan Valdemarsson, Sigrún Hjálmtýsdóttir og Bergþór Pálsson.

Þekktur matarbloggari heimsækir Café Kaja

Eins og Skessuhorn hefur áður greint frá opnaði Karen Jónsdóttir kaffihús á Akranesi fyrr í sumar og gaf því nafnið Café Kaja. Er það eina lífræna kaffihús landsins, þar sem allir drykkir og meðlæti er unnið úr lífrænu hráefni. Kaffihúsið vakti athygli matgæðingsins Alberts Eiríkssonar, sem undanfarin fimm ár hefur haldið úti matarblogginu vinsæla Alberteldar.com. Leit hann því við á Café Kaju síðastliðinn mánudag ásamt góðum gestum. Í framhaldinu mun hann síðan fjalla um kaffihúsið á bloggsíðu sinni.

Með Albert í för var eiginmaður hans Bergþór Pálsson og söngkonan Sigrún Hjálmtýsdóttir, eða Diddú. Voru þau á leið norður í land ásamt Kjartani Valdemarssyni píanóleikara til að halda tónleika. Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir, eiginkona Kjartans var einnig með í för. „Ég ákvað að nýta ferðina á leiðinni norður á Dalvík og koma við á þessu yndislega kaffihúsi hjá Karen og safna efni fyrir mína umfjöllun,“ segir Albert. Söngvararnir fara síðan austur á firði og enda á Fáskrúðsfirði, heimabæ Alberts, um helgina þar sem Franskir dagar eru haldnir.

 

„Hrikalega gott“

En áður hópurinn gat haldið lengra var komið að hressingunni. Borin var á borð hrákaka og kaffi hellt í mánaðarbollana. „Guð minn góður hvað þetta er gott,“ sagði Albert inntur eftir viðbrögðum eftir fyrsta kökubitanum. Hann kveðst almennt vera hrifinn af hráfæði. „Við ákváðum að prófa hráfæði fyrir nokkrum árum, ég og Bergþór. Höfðum heyrt alls konar góðar sögur en höfðum smá fordóma fyrir þessu og trúðum ekki endilega því sem var sagt. Þess vegna ákváðum við að prófa að borða ekkert annað en hráfæði í tíu daga,“ segir hann „og urðum svona líka hrifnir,“ bætir hann við. Síðan þá segir Albert að þeir hafi reynt að taka hráfæði í meira mæli inn í mataræði sitt. „Það er alveg satt sem sagt er, manni líður einhvern veginn betur og er orkumeiri ef maður borðar frekar hráfæði en annað,“ segir hann en viðurkennir að þeir séu alls ekki feimnir að gera vel við sig í öðru fæði, enda miklir matgæðingar báðir tveir. „Hráfæði er auðvitað jafn misgott og allur annar matur. Fer allt eftir því hver rétturinn er og hvernig tekst til hverju sinni. En það sem við höfum smakkað hér í dag er alveg hrikalega gott,“ sagði Albert í þann mund sem hann lauk við sína hressingu.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir