Mannvirkin á Keflavíkurflugvelli. Tölvuteikningu af nýja flugskýlinu sem reist verður af Límtré Vírneti hefur verið skeytt inn á myndina við hlið núverandi flugskýlis. Ljósm. icelandair.is.

Límtré Vírnet landaði risasamningi á Keflavíkurflugvelli

Byggingafyrirtækið Límtré Vírnet í Borgarnesi hefur samið við dótturfélag Icelandair um að reisa nýtt flugskýli sem hýsa á flugvélar Icelandair á Keflavíkurflugvelli. Samningar náðust föstudaginn 8. júlí síðastliðinn og að sögn Stefáns Loga Haraldssonar, framkvæmdastjóra Límtrés Vírnets, er um risasamning að ræða. „Samningar af þessari stærð hafa ekki verið gerðir hjá félaginu áður, það er að segja einstakir samningar,“ segir Stefán í samtali við Skessuhorn.

Um er að ræða viðbyggingu við hlið núverandi flugskýlis sem tekið var í notkun árið 1992. Nýja skýlið verður 27 metrar á hæð, grunnflötur þess verður um 10.500 fermetrar og heildarflatarmál um 13.600 fermetrar. Byggingin verður því gríðarstór og um margt sérhæfð að sögn Stefáns, enda á þar að verða hægt að koma fyrir tveimur flugvélum af gerðinni Boeing 757 hlið við hlið. „Hurð flugskýlisins verður til dæmis 90 metra breið og opnast mest um 65 metra,“ segir hann.

Fyrsta skóflustungan var tekin að flugskýlinu í byrjun júnímánaðar. Framkvæmdatíminn er áætlaður um 12 til 13 mánuðir. Stefnt er að því að taka flugskýlið í notkun seint á næsta ári. „Hönnun er komin í gang og annað slíkt og áætlað er að uppsetning fari af stað fyrir áramót,“ segir Stefán.

Líkar þetta

Fleiri fréttir