Sveitalögga slædd upp af botni Faxaflóa

Í byrjun júlímánaðar var humarskipið Fróði á veiðum 20 sjómílum suðaustur af Snæfellsjökli þegar skipverjar urðu varir við kvikmyndafilmur í trollinu. Filmunum var komið til Kvikmyndasafns Íslands þar sem menn töldu í fyrstu að um væri að ræða kvikmynd frá stríðsárunum þegar mikil skipaumferð var um Faxaflóa. Töldu menn jafnvel að filmurnar gætu verið úr bandaríska herskipinu Alexander Hamilton sem sökkt var af þýskum kafbáti árið 1942.

Erlendur Sveinsson, forstöðumaður Kvikmyndasafns Íslands, hefur unnið að því að undanfarið að komast að því hvað sé á filmunum. Þrátt fyrir langa veru á botni Faxaflóa þá náði Erlendur fram römmum sem hann tók ljósmyndir af og birti á facebook síðu safnsins. Það var Mikhail Timofeev sem fæddur er í Sovétríkjunum, en er nú búsettur á Íslandi, sem kom auga á ljósmyndir Kvikmyndasafnsins og leysti gátuna en hann mundi eftir að hafa séð myndina sem barn. Myndin er sovésk barna- og unglingamynd frá árinu 1968 og heitir „Derevenskij detekviv“ á frummálinu en á íslensku myndi það þýðast sem „Sveitalöggan.“ Það er því nokkuð ljóst að hún kemur síðari heimsstyrjöldinni ekkert við en hún er framleidd á Kaldastríðs árunum. Það er þó algjörlega óvitað hvernig hún endaði á hafsbotni í Faxaflóa.

Líkar þetta

Fleiri fréttir