Í dag var flaggað í hálfa stöng framan við höfuðstöðvar Límtrés Vírnets í Borgarnesi. Ljósm. gj.

Minning – Agnar Ólafsson framleiddi nagla í meira en hálfa öld

Í dag fór fram frá Borgarneskirkju útför Agnars Ólafssonar fyrrum vélamanns í saumdeild Límtré Vírnets. Agnar var fæddur í upphafi lýðveldisársins og bjó alla tíð í Borgarnesi. Starfsferill hans var óvenjulegur eins og kom fram í viðtali við hann, sem Heiðar Lind Hansson blaðamaður skráði, og birt var í Skessuhorni haustið 2013. Í janúar það ár hafði Agnar átt 50 ára starfsafmæli. Hann hóf störf hjá fyrirtækinu í janúar 1962, sem þá hét Vírnet, og starfaði þar allar götur síðan. Saumdeildin framleiðir nagla í öllum stærðum og er naglaframleiðslan sú eina sinna tegundar hér á landi. Agnar var því reynslu sinnar og þekkingar vegna lykilstarfsmaður saumdeildarinnar í Borgarnesi um áratugaskeið. Agnar bjó í húsi sínu alla tíð, einn frá því hann ungur að árum missti foreldra sína. En starfsferill hans var vissulega merkilegur, en lauslega er áætlað að Agnar hafi á starfsferli sínum framleitt á þriðja milljarð nagla. Líklega verður það seint toppað.

Að beiðni lesanda Skessuhorns birtum við hér í heild sinni viðtalið sem Heiðar Lind tók við Agnar og birtist í Skessuhorni haustið 2013.

Agnar Ólafsson (4. janúar 1944-7.júlí 2016)

Fyrsta húsnæðið í Brákarey

„Jú, það var upp úr áramótum 1962 sem ég kom til starfa hjá Vírneti,“ segir Agnar spurður um hvenær hann hóf störf hjá fyrirtækinu. „Fyrirtækið var þá sex ára gamalt. Það var þá með starfsemi í Brákarey, í gamla veitingahúsi Vigfúsar Guðmundssonar sem var á lóð milli Grímshússins og gömlu fjárréttar Kaupfélagsins í suðurhluta eyjarinnar. Staðsetningin hentaði vel þar sem stór hluti flutninga til og frá Borgarnesi fóru um Borgarneshöfn á þessum árum,“ segir Agnar en framleiðsluvörur verksmiðjunnar fóru að mestu landleiðina.

 

Naglar ekki á dagskrá fyrst

Vírnet var stofnað af nokkrum heimamönnum í Borgarnesi og öðrum fjárfestum árið 1956. Markmiðið með stofnun fyrirtækisins var að hefja framleiðslu á vírneti eins og nafn þess gefur til kynna. „Veitingahús Vigfúsar var ekki hannað fyrir verksmiðju af þessu tagi enda hugsaði stjórn Vírnets það einungis sem bráðabirgðahúsnæði. Skömmu eftir stofnun fyrirtækisins kom í ljós að húsnæðið rúmaði ekki þann vélakost sem þurfti til vírnetsframleiðslu. Því hófu stjórnendur fyrirtækisins að horfa til naglaframleiðslu. Ekkert vírnet var því framleitt og selt frá fyrirtækinu þó svo að nafnið hafi haldist allar götur síðan. Fyrsta naglavélin kom strax í Borgarnes vorið 1956 og var hún þýsk af Wickschtröm gerð. Síðan þróaðist framleiðslan áfram næstu ár og voru fleiri naglavélar keyptar auk húðunartækja. Þetta leiddi til þess að viðbyggingum var bætt við húsin í eyjunni. Stækkunin var komin til skjalanna þegar ég byrjaði,“ segir Agnar.

 

Erfiðisvinna

Hann segir að fyrst um sinn hafi hann unnið við galvanhúðun og hreinsun nagla. „Þetta var talsvert puð þar sem tilfærslur milli framleiðslustiga voru nánast allar með handaafli. Ég flutti sem dæmi nagla í olíufötum í hreinsun. Einnig þurfti að færa með ýmsum kúnstum vírinn sem notaður var í framleiðsluna. Hann kom dreginn í rúllum sem voru misþungar, allt frá 50-150 kíló að þyngd. Rúllurnar voru fluttar til landsins frá Tékkóslóvakíu og kemur hráefni enn þann dag í dag frá sömu slóðum þar sem nú heitir Tékkland. Rúllurnar komu í mjög misjöfnu ásigkomulagi þar sem þeim hætti til að ryðga á leiðinni eða skemmast í flutningum. Leiðin mín lá loks í naglaframleiðsluna þar sem ég hef verið allar götur síðan,“ segir Agnar.

 

Vírdrátturinn mikilvægur

Starfsaðstæður breyttust segir Agnar þegar nýtt verksmiðjuhús Vírnets var byggt við Borgarbraut. „Framkvæmdum við nýtt hús lauk árið 1965 og var starfsemin flutt á því ári að Borgarbraut þar sem hún hefur verið síðan. Aðstaða til vinnu breyttist til muna í nýja húsinu. Við gátum þá notað vélar í auknum mæli við framleiðsluna og við hleðslu flutningabíla sem fóru til og frá verksmiðjunni. Fyrirtækið fjárfesti einnig um svipað leyti í svokallaðri vírdráttarvél sem var fyrsta vélin sem flutt var inn í nýja húsið. Vélin gerði gæfumuninn fyrir naglaframleiðsluna og rekstur Vírnets, sérstaklega vegna þess að með því að draga vír í Borgarnesi gat fyrirtækið keypt minna unnin vír frá útlöndum sem var ódýrari í innflutningi. Vélin borgaði sig fljótt og leiddi af sér mikla hagkvæmni fyrir rekstur og framleiðslu,“ segir Agnar.

 

2.400 milljarðar nagla

Sögunni víkur þá að naglaframleiðslunni sjálfri; hvernig fer hún fram? Þessu kann Agnar að gera skil. „Ferillinn er þannig að í dag fáum við vírinn í Borgarnes í rúllum frá útlöndum. Hver rúlla er um tvö tonn að þyngd. Vírinn kemur til okkar óunninn beint úr stálbræðslu og er síðan dreginn í gegnum vírdráttarvélina. Hann er dreginn í gegnum svokölluð demantsaugu sem móta hann á ýmsan hátt. Þá teygist vírinn verulega í drættinum. Alls erum við að vinna með 28 mismunandi grunngerðir af vír, breytilegt eftir þykkt og gerð. Talsverðir kraftar eru að verki í vírdrættinum og verður vírinn líkt og teygt tyggjó í meðförum vélarinnar sem spinnur hann á sérstök kefli. Að þessu loknu er vírinn klipptur og mótaður í þær naglagerðir sem framleiddar eru í naglavélum. Fyrirtækið á nú sjö vélar sem allar eru þýskar og geta þær búið til tugi vörutegunda af nöglum. Þegar naglarnir hafa verið búnir til fara þeir í galvanhúðun eða beint í pökkun, allt eftir þörfum kaupenda. Flestir fara þeir í húðun,“ segir Agnar og greinir frá því að ársframleiðsla á nöglum í Borgarnesi séu á bilinu 150-200 tonn. „Fyrir áhugsama reiknimenn sem langar að vita hversu marga nagla ég hef framleitt, þá er eitt kílógramm af tveggja og hálfs tommu nöglum um 240 naglar,“ segir Agnar kíminn í bragði. Til gamans má geta þess að miðað við efri mörk, þ.e. 200 tonna framleiðslu á ári, nemur naglafjöldinn hjá Agnari 2.400 milljörðum nagla á síðastliðnum 50 árum.

 

Bar kennsl á timburbrak úr Skeiðarárbrú

Naglarnir frá Vírneti í Borgarnesi hafa mest verið seldir innanlands. Þá hafa þeir verið fluttir út til Færeyja. „Ég held að þau hús séu í miklum minnihluta á Íslandi sem ekki hafa verið byggð með nöglum frá Vírneti,“ fullyrðir Agnar. Þá komi fyrir að framleiða þurfi sérstaka nagla. „Eitt eftirminnilegt sérverkefni stendur upp úr. Á árunum 1972-1974 var Skeiðarárbrúin í byggingu og krafðist framkvæmdin fimm og hálfs tommu nagla sem við sérframleiddum í Borgarnesi. Brúin stóð í tæpa tvo áratugi en splundraðist í Skeiðarárhlaupinu mikla árið 1996 og barst út á haf. Skömmu eftir hlaupið bárust fregnir af því að dularfullt timburbrak hafi komið á land vestur á Snæfellsnesi og töldu bændur sem það fundu það vera brot úr brúnni. Menn voru þó ekki vissir. Ég frétti af þessu og hringdi vestur og vildi fá að vita hvort einhverja nagla væru að finna í hinu meinta flaki af brúnni. Þessu var skutlað til mín í Borgarnes og við skoðun fann ég naglana sérframleiddu. Ég gat því staðfest að þetta væri brot úr brúnni,“ segir Agnar en tekur fram að þetta hafi verið í eina skiptið sem hann hefur borið kennsl á látnar brýr.

 

Saumdeildin styrkst eftir hrun

Agnar segir að heilt yfir hafi verið ágætt að vinna hjá Límtré Vírneti í Borgarnesi. „Fyrirtækið hefur gengið í gegnum breytingar á allra síðustu árum. Það starfaði undir merkjum Vírnets allt fram til aldamóta og var alltaf í eigu heimamanna. Síðan hefur félagið gengið í gegnum eigendaskipti og verið sameinað öðrum félögum. Þrátt fyrir það hefur naglaframleiðslan ætíð notast við Vírnets vörumerkið. Núverandi eigendur komu inn í fyrirtækið í árslok 2010, nokkrir af þeim heimamenn,“ segir Agnar. Hann segir að á þensluárunum hafi naglaframleiðslan átt undir högg að sækja. „Þetta var vegna hás gengis og var orðið töluvert ódýrara að flytja nagla til landsins. Þetta gróf undan samkeppnishæfni okkar. Eftir bankahrunið breyttist þessi staða þegar krónan veiktist. Í kjölfarið jókst eftirspurnin. Það hefur því verið ágætt að gera undanfarin misseri,“ bætir hann við.

 

Betra að negla en framleiða

„Ákveðin uppbygging hefur átt sér stað hér í Borgarnesi á liðnum árum og er fyrirtækið alltaf að þróast í nýjar áttir. Naglaframleiðslan hefur má segja verið nánast frá upphafi, en síðan hefur bæst við framleiðsla á bárujárni og milliveggjastöðum, blikksmíði, hurðasmíði, smíði límtrésfestinga og margs konar önnur byggingatengd þjónusta. Yfir heildina litið held ég að við höfum alltaf leitast við að veita góða þjónustu og framleiða góða vöru. Það hefur alla vega verið viðleitni mín hjá fyrirtækinu,“ segir Agnar. „Á fimmtíu árum hef ég unnið með fjölda fólks hjá Vírneti og mörgu skemmtilegu og góðu. Það er náttúrulega svolítið sérstakt að vera að vinna svona einhæfa vinnu sem naglaframleiðslan er og í svona langan tíma. Ef einhver hefur áhuga þá mæli ég þó frekar með að menn negli naglana heldur en búi þá til,“ segir Agnar að lokum.

-Heiðar Lind Hansson skráði.

Líkar þetta

Fleiri fréttir