Slökkviliðsmenn að störfum. Ljósm. Lögreglan á Vesturlandi.

Skjót viðbrögð þegar eldur kom upp í hjólhýsi

Eldur kom upp í hjólhýsi sem nýverið var búið að leggja við bensíndælur verslunar Baulunnar í Stafholtstungum um klukkan 14 í gær. Slökkvilið Borgarbyggðar var kvatt á staðinn og gekk greiðlega að slökkva. Að sögn Bjarna Kr Þorsteinssonar slökkviliðsstjóra skiptu þó mestu skjót viðbrögð Kristbergs Jónssonar kaupmanns í Baulunni. „Hann Kibbi brást hárrétt við. Hann færði bílinn með hjólhýsinu frá bensíndælunum, aftengdi gastúkana og tryggði svæðið og byrjaði að kæla hjólhýsið að utanverðu án þess að opna dyrnar. Okkar mönnum gekk svo vel að slökkva þegar þeir mættu á svæðið skömmu síðar ásamt lögreglu,“ segir Bjarni. Hjólhýsið er mjög illa farið af hita og reyk og talið ónýtt. Það var flutt burtu á vörubíl.

Hjólhýsi eru full af eldsmat, mikið plast og eiturefni og sprengihætta talsverð einkum þegar gaskútar eru notaðir sem orkugjafar. „Það skiptir því miklu máli að rétt sé brugðist við þegar kviknar í þessum tækjum og tryggja svæðið eins og kostur er,“ sagði Bjarni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir