Hér syngur boltinn í netinu eftir glæsilega aukaspyrnu Garðars Gunnlaugssonar. LJósm. Guðmundur Bjarki Halldórsson.

Sigurganga Skagamanna heldur áfram

Í gær fór fram leikur Skagamanna og Vals á Akranesvelli í elleftu umferð Pepsi deildar karla. Skagamenn hafa verið á miklu skriði í deildinni og héldu sigurgöngu sinni áfram í gær með 2-1 sigri á Valsmönnum og unnu þar með sinn fjórða leik í röð. Skagamenn lyftu sér upp fyrir Valsmenn með sigrinum og eru nú í sjötta sæti með sextán stig en Valsmenn í því sjöunda með fjórtán stig.

Það vakti mikla athygli þegar Skagamenn spiluðu gegn Stjörnunni í lok júní að Ármann Smári hafði aflitað hárið en þar með stóð hann við loforð sitt um að aflita á sér hárið ef Skaginn ynni KR í umferðinni á undan. Áður höfðu leikmennirnir Hallur Flosason og Árni Snær Ólafsson aflitað á sér hárið. Það kætti marga stuðningsmenn Skagans í gær þegar liðin gengu inn á völlinn að þeir Arnór Snær Guðmundsson og Darren Lough höfðu bæst í hóp þeirra aflituðu og öll varnarlínan því orðin aflituð.

Leikurinn var eign Valsmanna fyrsta hálftímann og sóttu þeir þungt að marki Skagamanna á meðan heimamenn sköpuðu sér ekki færi. Mark frá Valsmönnum lá í loftinu. Það voru þó Skagamenn sem skoruðu fyrsta markið. Þeir fengu innkast á 33. mínútu sem Jón Vilhelm tók; hann kastaði boltanum langt inn í teig beint á höfuðið á Ármanni Smára Björnssyni sem stangaði boltann í netið. Staðan 1-0 fyrir Skagamenn og markið eins og blaut tuska framan í Valsmenn sem höfðu stjórnað leiknum.

Fimm mínútum síðar braut varnarmaður Vals á Garðari Gunnlaugssyni rétt fyrir utan vítateig Valsmanna. Aukaspyrnan var á stórhættulegum stað. Garðar hefur ekki tekið margar aukaspyrnur fyrir Skagamenn í gegnum tíðina en hann tók þessa og skoraði með laglegu skoti yfir varnarvegg Valsmanna. Garðar virðist geta skorað að vild þessa dagana en markið var tíunda mark hans í ellefu leikjum.

Þegar flautað var til hálfleiks var staðan 2-0 fyrir Skagamenn sem voru betri aðili leiksins síðasta korter hálfleiksins. Síðari hálfleikurinn var eins og bróðurpartur fyrri hálfleiks; Valsmenn voru meira með boltann og stjórnuðu leiknum. Á 64. mínútu fékk Andri Adolphsson boltann við vítateig Skagamanna vinstra megin, fór inn á völlinn á hægri löppina og skaut boltanum; boltinn fór í boga yfir alla þá sem voru inn í vítateignum áður en hann endaði í stönginni og inn í netinu. Gríðarlega fallegt mark hjá Andra gegn sínum gömlu félögum.

Nær komust Valsmenn ekki og lokatölur því 2-1 fyrir Skagamenn. Skagamenn eru heitasta liðið í deildinni þessa stundina og mæta þeir ÍBV á heimavelli næstkomandi sunnudag, 24. júlí.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Stangveiðar með drónum

Þegar blaðamaður Skessuhorns renndi niður Facebook í morgun rakst hann á athyglisverða auglýsingu. Þar auglýsti Suður-Afríska fyrirtækið Gannet búnað fyrir... Lesa meira