Zack Fry frá Ohio í Bandaríkjunum skoðar nýja stýrisspjaldið áður en hann leggur í langferðina.

Bílaleigur bæta upplýsingamiðlun til erlendra ferðamanna

Bílaleigur hér á landi hafa fengið nýja og endurbætta útgáfu stýrisspjalda þar sem ökumenn eru upplýstir með myndrænni hætti en áður hvað helst ber að varast í umferðinni á Íslandi og hvað séríslensku umferðarskiltin þýða. Nýju spjöldin eru hengd á stýri bílaleigubílanna og eiga því ekki að fara framhjá nokkrum ökumanni. Texti þeirra er á ensku, en ökumenn munu einnig hafa val um að fá upplýsingabæklinga á nokkrum öðrum tungumálum þ.m.t. þýsku, frönsku, spænsku og kínversku. Á spjöldunum er undirstrikað með myndrænum hætti að ávallt eigi að hafa kveikt á framljósum, spenna beltin, virða hámarkshraða, fara eftir umferðarskiltum og gæta varúðar við akstur á malarvegum.

„Samtök ferðaþjónustunnar hafa undanfarin ár staðið fyrir útgáfu stýrisspjalda fyrir bílaleigubíla í samstarfi við viðbragðsaðila og stofnanir. Þannig er dregið úr hættu á að ökumenn fái misvísandi upplýsingar,“ segir Gunnar Valur Sveinsson, verkefnastjóri hjá SAF. Stýrisspjöldin eru gefin út í tveimur flokkum, annarsvegar fyrir fólksbíla og hins vegar jeppa. Fólksbílaspjöldin sýna m.a. að óheimilt er að aka slíkum bílum á miðhálendinu þar sem þeir eru ekki búnir fyrir slíkar aðstæður. Aftan á stýrisspjaldinu eru útskýringar á nokkrum séríslenskum umferðarskiltum, þar á meðal malbik endar, blindhæð, malarvegur og allur akstur bannaður. Þar er einnig bent á að akstur utan vega er bannaður og að sektir liggi við slíku, líkt og öðrum umferðalagabrotum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Með sjaldgæfan blóðtappa

Skagamaðurinn Oliver Stefánsson, sonur Stefáns Þórs Þórðarsonar og Magneu Guðlaugsdóttur, og varnarmaður sænska úrvalsdeildarfélagsins Norrköping, verður frá næsta hálfa árið... Lesa meira