Vinabær færir Grundarfirði gjöf

Á þriðjudaginn voru 36 einstaklingar frá franska bænum Paimpol staddir í Grundarfirði. Paimpol er vinabær Grundarfjarðar og afhenti hópurinn gjöf til íslensku vina sinna og fór afhendingin fram í Sögumiðstöðinni. Gjöfin var upplýsingaskilti til þess að setja við keltneska minningarkrossinn í Grundarfirði sem Paimpol gaf árið 2006. Krossinn er til minningar um franska sjómenn sem stunduðu veiðar við Íslandsstrendur. Á staðnum sem krossinn stendur byggði útgerðarmaðurinn Sylvain Allenou frá Paimpol þurrkhús árið 1858.

Eftir afhendingu tók Björg Ágústsdóttir til máls og hélt kynningu um sögu Frakka í Grundarfirði auk þess sem hún fjallaði um samskipti vinabæjanna frá því þeir hófu að hafa samskipti 2004. Á vef Grundarfjarðarbæjar kemur fram að mikil ánægja hafi verið með þessa skemmtilegu heimsókn og gestirnir haldið sína leið glaðir í bragði.

Líkar þetta

Fleiri fréttir