Baldur Þórir Gíslason á Veiðistaðnum. Ljósm. sm.

Veiðistaðurinn opnaður í Búðardal

Nýr veitingastaður var opnaður við Vesturbraut í Búðardal í liðinni viku. Ber staðurinn nafnið Veiðistaðurinn og eru Baldur Þórir Gíslason og Harpa Sif Ingadóttir eigendur staðarins. „Veitingastaðurinn er hugsaður sem sjávarréttastaður að megninu til og erum við með einfaldan matseðil, t.d. krækling, fisk og franskar, fiskisúpu og heimagerðan fiskborgara, auk þess sem við ætlum að reyna að vera alltaf með einhvern fiskrétt dagsins. Til að mynda vorum við með lax um helgina og höfum hugsað okkur að bjóða af og til upp á karfa. Við leggjum fyrst og fremst áherslu á úrvals hráefni en það er auðvelt að fá gott hráefni á Íslandi,“ segir Baldur í samtali við Skessuhorn. Baldur er einnig með fiskvinnslu við höfnina í Búðardal auk þess sem hann veiðir grásleppu í Breiðafirði. „Það hefur verið mikil umferð ferðamanna niður að höfn að spyrja eftir fiski. Við áttum þetta húsnæði sem er á mjög góðum stað í bænum þá kviknaði hugmynd um að opna svona stað. Við erum einnig að skoða þann möguleika að selja ferskan fisk úr fiskborði en það verður ekki strax,“ segir Baldur.

Hann segir viðtökurnar hafa verið mjög góðar í Búðardal fyrstu dagana eftir opnun. „Það hefur verið mikið að gera frá því við opnuðum og heimamenn hafa verið sérstaklega duglegir að koma,“ segir hann. Auk þess að reka Veiðistaðinn er Baldur með fiskvinnslu við höfnina í Búðardal og veiðir grásleppu í Breiðafirði. „Það hefur verið nóg að gera frá því við fórum að undirbúa staðinn. Ég er líka með fimm mánaða tvíbura sem voru fæddir bara mánuði áður en framkvæmdir hófust. En við erum með margt gott fólk í vinnu hjá okkur,“ segir Baldur. Veiðistaðurinn er opinn frá klukkan 11 til 22 flesta daga til að byrja með.

Líkar þetta

Fleiri fréttir