Ökklabrotnaði á afmælisdaginn

Axel Guðni Sigurðsson er 18ára, átti afmæli síðastliðinn laugardag. Afmælisdagurinn leit í fyrstu leit út fyrir að verða sá besti fram að þessu en breyttist á svipstundu í þann versta. „Ég hef sjaldan verið eins ánægður á afmælisdeginum mínum. Ég var að fara keppa í mótorkrossi á Akureyri, það gerist ekki mikið betra. Ég hafði keppt á Akureyri þrisvar áður og eins og vanalega var brautin og aðstæður mjög góðar á Akureyri. Ég tók fyrstu tvo hringina í tímatökunni rólega og ég fann fljótlega að ég var öruggur í brautinni. Ég ákvað að taka þriðja hringinn á fullri ferð og halda þéttri inngjöf allan tímann. Á einum stað í brautinni kom nokkuð langur beinn kafli og stökkpallur. Ég ákvað að gefa allt í þetta og ætlaði að lenda á seinni lendingunni en áður hafði ég aðeins farið á styttri lendinguna sem var nær stökkpallinum, ég var því að fara taka lengra stökk. Þegar ég var kominn í loftið fór ég að efast um að ég myndi ná að lenda á lendingunni; ég reyndi því að einbeita mér að því að lenda á afturdekkinu og rétta mig svo við svo lendingin yrði mýkri. Ég náði ekki að lenda eins og ég ætlaði, ég lenti beint framan á aukalendingunni og dempararnir þjöppuðust nánast alveg saman. Ég var með tábergið á fótstiginu eins og það á að vera. Við höggið leituðu tærnar upp en ökklarnir niður svo höggið fór allt í ökklana,“ útskýrir Axel.

„Ég datt ekki af hjólinu heldur hélt áfram smá spöl áður en ég fór af hjólinu og lagðist niður. Fyrst hélt ég að um tímabundinn sársauka væri að ræða. Björgunarsveitarmenn komu á bíl og athuguðu með mig. Á þeim tímapunkti var ég bara nokkuð ferskur og ég held að menn hafi ekkert haft of miklar áhyggjur. Ég komst samt fljótlega að því að það væri skynsamlegast að fara á sjúkrahús. Það var ekki kallaður til sjúkrabíll svo ég fór á einkabíl á sjúkrahúsið. Við vorum ekki alveg með á hreinu hvar sjúkrahúsið væri svo það tók aðeins lengri tíma að komast þangað. Á meðan ég var í bílnum sat ég bara eins og fólk situr í bíl og að þeim sökum rann allt blóðið í niður í lappir og í bólgurnar og á tímabili hélt ég að það væri að fara líða yfir mig en ég komst á sjúkrahúsið áður,“ segir Axel.

Í Skessuhorni vikunnar er nánar rætt við Axel Guðna sem bíður nú eftir skurðaðgerð til að verstu ökklabrotin verði lagfærð.

Líkar þetta

Fleiri fréttir