Framkvæmdir á lóð FSN

Nú stendur yfir vinna við annan áfanga lóðar Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði. Verið er að taka stéttina fyrir framan anddyri skólans, setja hitalagnir undir og bæta aðgengi fyrir fólk á hjólastólum. „Það var byrjað á þessum öðrum áfanga í júníbyrjun, skömmu eftir að skóla lauk. Til stendur að vinnu ljúki fyrir Grundarfjarðadaga sem eru síðustu helgina í júlí. Við vonum að það gangi,“ segir Ólafur Tryggvason, umsjónarmaður fasteigna FSN, í samtali við Skessuhorn. Er vinnan nú framhald af vinnu sem hófst fyrir tveimur árum síðan. Þá var hellulagt vestan við innganginn, gengið frá í kringum eldhús og við inngang starfsmanna. „Skólinn var byggður með miklu hraði árið 2004 og bara hellulagt til bráðabirgða fyrir framan, ekki settar hitalagnir eða neitt og vantaði niðurföll,“ segir Ólafur.

Efnahagshrunið kom síðan illa við eigendur Jeratúns, rekstraraðila skólans og framkvæmdum seinkaði,“ segir Ólafur en eigendur félagsins eru Grundarfjarðarbær, Snæfellsbær, Stykkishólmsbær og Helgafellssveit. „En nú er glæta og því var farið í þennan annan áfanga og fegra lóðina því hún hefur aldrei verið alveg klár,“ bætir hann við.

Það er Almenna umhverfisþjónustan hefur séð um báða áfanga lóðarinnar hingað til. Á næsta ári stendur til að fara í þriðja áfangann og þökuleggja lóð fjölbrautaskólans.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.