Malarvegur um Fellsströnd í Dalasýslu.

Fjárframlög til styrkvega „smánarlega lág“

Vegagerðin hefur samþykkt að veita 2,2 milljónum króna til viðhalds styrkvega í Dalabyggð á árinu 2016. Þetta kemur fram í fundargerð byggðarráðs Dalabyggðar frá 6. júlí síðastliðnum. „Byggðarráð þakkar veittan styrk en lýsir yfir vonbrigðum með smánarlega lág fjárframlög til styrkvega. Framlög virðast lækka á sama tíma og tilhneiging er til að færa vegi í umsjá sveitarfélaga,“ segir í fundargerð byggðarráðs.

Dalamenn gagnrýndu síðast í aprílmánuði harðlega fjárframlög til vegagerðar á Vestursvæði í Samgönguáætlun og kröfðust aukins fjár til vegamála. Í nýjum Hagvísi um umferð og ástand vega á Vesturlandi kemur fram að íbúar telja vegakerfið fara versnandi á sama tíma og gæði þess verði sífellt mikilvægari þáttur fyrir áframhaldandi veru í landshlutanum. Verst er ástandið í Dalabyggð þar sem slysatíðni á vegum er 1,82. Gerir það vegakerfið í Dölum það hættulegasta á Vesturlandi og það fimmta hættulegasta á landsvísu. Þar kemur einnig fram að 74% vega sveitarfélagsins eru malarvegir, eins og áður hefur verið greint frá í Skessuhorni. Aðeins fjögur sveitarfélög á landinu hafa hærra hlutfall malarvega.

Líkar þetta

Fleiri fréttir