Þetta skilti mætir gestum í spreng við bílastæðið að Glanna og Paradísarlaut.

Fá ekki rekstrarfé og loka almenningssalernum við Glanna

Búið er að loka og læsa almenningssalerni sem er við bílastæðið að Glanna og Paradísarlaut í Norðurárdal. Staðurinn er afar fjölfarinn ferðamannastaður enda um að ræða eina af fallegustu perlum Borgarfjarðar sem auk þess er vel kynnt í öllum helstu ferðatímaritum. Á skilti við salernishúsið stendur: „Eigendur Hreðavatnsjarðarinnar sjá sér ekki fært að hafa salernið opið fyrir ferðamenn og aðra sem eiga leið um svæðið þar sem ekki hefur náðst samkomulag við sveitarfélagið Borgarbyggð um reksturinn.“

Viðar Þorsteinsson er í stjórn golfklúbbsins Glanna sem þarna er rekinn í hrauninu ofan við fossinn. Hann segir landeigendur nú komna í þá stöðu að hafa ekki fé til að reka almenningssalerni, enda geti það vart talist í þeirra verkahring. „Það kostar um 400 þúsund krónur á ári að halda úti slíkri þjónustu sem felst í að halda svona salernishúsi opnu. Við höfum rætt við forsvarsmenn sveitarfélagsins en ekki fengið ásættanleg viðbrögð. Meðal annars er okkur sagt að sveitarfélagið styrki ekki slíka starfsemi nema á friðlýstum stöðum. Borgarbyggð skipaði starfshóp til að ræða þennan augljósa skort sem er á salernisaðstöðu á fjölförnum stöðum í héraðinu en sá hópur er bara rétt að hefja sína vinnu og mun því ekki hafa mikil áhrif á þjónustuna þetta sumarið. Við getum því ekki unað við þetta ástand og ætlum ekki að opna þessi almenningssalerni að nýju fyrr en búið verður að tryggja pening til reksturs þeirra,“ sagði Viðar. Aðspurður segir hann að í golfskálanum sé fólki leyft að fara á salerni, en þurfi að greiða eina evru. Afar misjafnt sé eftir þjóðernum gesta hvort þeir greiði eða ekki.

Líkar þetta

Fleiri fréttir