Guðmundur mokar ís í körin.

„Ég er alveg sáttur við vertíðina“

Veðrið lék við Hólmara þegar blaðamann bar að garði í Stykkishólmshöfn síðasta miðvikudag. Þar hitti hann fyrir Guðmund Gunnlaugsson sem var að ísa glænýja grásleppu. Guðmundur rær ásamt eiginkonu sinni Dagbjörtu Bæringsdóttur á Kristbjörgu SH-084. „Við erum búin að fara nokkur ár saman á grásleppu,“ segir Guðmundur, en þau eiga bátinn ásamt tengdasyninum. „Við fórum út klukkan sex í morgun og vorum að draga við Langeyjarnar,“ segir hann. „Við byrjuðum að róa eftir sjómannadag og erum bara að hætta núna, við erum að taka upp,“ segir Guðmundur og bendir blaðamanni netin sem hífð höfðu verið upp á bryggjuna skömmu áður.

Aðspurður um veiðina á tímabilinu segir Guðmundur að hún hafi verið alveg þokkaleg. „Það hefur verið miklu meira af grásleppu norðurfrá en ég er alveg sáttur við vertíðina,“ segir hann. „Almennt hefur verið mjög góðu veiði norðurfrá, þegar menn eru að fara alveg inn undir Reykhóla. Það er til dæmis óhemju veiði úti fyrir Skarðsströnd,“ segir Guðmundur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir