
Vestlendingar taka þátt í leitarstörfum norðan Torfajökuls
Víðtæk leit að ferðamanni hefur síðan í gærkvöldi staðið yfir í Sveinsgili norðan Torfajökuls, á hálendinu upp af Suðurlandi. Snjóhengja gaf sig og féll göngumaður ofan í ána sem rennur norðan frá jöklinum. Samferðamaður hans slapp og gat gert björgunaryfirvöldum viðvart. Víðtæk leit hófst í kjölfarið en í gærkvöldi var kallaður út viðbótarmannskapur og fóru meðal annars björgunarsveitir frá Akranesi, Borgarfirði og Suðurnesjum félögum sínum af Suðurlandi til aðstoðar. Í morgun höfðu hátt í 200 björgunarsveitarmenn komið að leitarstörfum frá því klukkan 18 í gærkvöldi. Unnið er við mjög erfiðar aðstæður, m.a. er mokað í gegnum ísbreiðuna til að komast niður að ánni sem maðurinn féll í. Notast var við keðjusagir til að losa um ísinn og allan þann mannskap sem gat mokað og komið klaka og snjó frá vettvangi slyssins. Þyrla Landhelgisgæslunnar var á staðnum í nótt og ferjaði óþreytta björgunarsveitarmenn á staðinn og þreytta í hvíld inn í Landmannalaugar.