Sumarlist 2016 sýnir í Hjálmakletti

Í Hjálmakletti í Borgarnesi var sýnd um síðustu helgi listsýningin Sumarlist 2016 sem er tilraunaverkefni sem unnið er í sjálfboðavinnu af Fluxus Design Tribe og Creatrix í samvinnu við Borgarbyggð. Hugmyndin af verkefninu byggir á einkunnarorðum Creatrix; sköpun, vitund og samvinna ásamt því að hugmynd Fluxus Design Tribe er höfð að leiðarljósi en hún er að sá sem ferðast getur haft áhrif á umhverfið sitt og það samfélag sem hann er innan hverju sinni. Auglýst var eftir fólki sem vildi taka þátt í verkefninu og sýna verk sín. Það voru bæði börn og fullorðnir sem sýndu áhuga á að taka þátt í verkefninu svo aldursbil á sýningunni er breitt. Verkið er hugsað sem samfélagsverkefni sem ætlað er að efla skapandi samstarf og vitund um mikilvægi sköpunar og frumkvæðis í daglegu lífi. Markmið verkefnisins er einnig að sýna að samvinna eflir og getur ýtt undir nýsköpun og árangur á mörgum sviðum samfélagsins. Sýningin er hugsuð sem sjálfsprottin sýning og hefur þann blæ á sér. Þátttakendur völdu sjálfir verkin án skilyrða og settu þau upp með þeim hætti sem þeir sjálfir kusu í rýminu án þess að negla í veggi eða breyta lýsingu. Verkin á sýningunni eru fjölbreytt eins og listamennirnir sem eru á öllum aldri.

Um næstkomandi helgi verður síðasta tækifærið til þess að sjá sýninguna en einnig verður listmarkaður þar sem fólki gefst tækifæri til að kaupa listmuni beint frá listamönnum. Opið verður bæði laugardaginn og sunnudaginn 16. og 17. júlí á milli klukkan 10 og 14 í Hjálmakletti.

Líkar þetta

Fleiri fréttir