
Strandveiðum lýkur í dag frá Snæfellsnesi
Strandveiðum júlímánaðar lýkur í dag á svæði A, frá Eyja- og Miklaholtshreppi til Súðavíkur. Von er á tilkynningu í Stjórnartíðindum þar að lútandi. Veiðar á D svæði hafa þegar verið stöðvaðar, en það er svæðið sem nær frá Höfn og vestur um til og með Borgarbyggð. Veiði fyrir vestanverðu landinu hefur verið mjög góð í mánuðinum og vænn fiskur sem bátarnir hafa verið að koma með að landi. Samkvæmt vef Fiskistofu hafði fyrir hádegi í gær verið tilkynnt um löndun á 634 tonnum af 1.023 tonna júlíhámarki á A svæði. Staðan á öðrum svæðum er sú að á svæði B, sem nær frá Ströndum til Eyjafjarðar, hafði í gær verið tilkynnt um 282 tonna afla af 626 tonna hámarksafla. Á svæði C, sem nær austur til Hafnar var búið að landa 194 tonnum af 661 tonna hámarki.