Konur breyttu búháttum – Ný bók um Mjólkurskólann í Borgarfirði

Það hefur ekki farið hátt að í Borgarfirði var rekinn Mjólkurskóli á árunum 1900-1918. Skólinn var settur til nýsköpunar í landbúnaði, til þess að mæta kreppu. Bændur hugðust framleiða smjör til útflutnings en það skorti þekkingu til þess að vinna smjörið fyrir hina kröfuhörðu markaði. Ráðinn var ungur danskur mjólkurfræðingur, Hans Jepsen Grönfeldt, til þess að veita skólanum forstöðu. Skólinn var settur á Hvanneyri en síðan fluttur að Hvítárvöllum. Um liðna helgi kom formlega út ný bók um skólann; Konur breyttu búháttum, saga Mjólkurskólans á Hvanneyri og Hvítárvöllum. Það var Bjarni Guðmundsson á Hvanneyri sem skráði en Bókaútgáfan Opna gefur bókina út í samstarfi við Landbúnaðarsafnið.

Mjólkurskólinn var eingöngu fyrir stúlkur sem margar urðu síðar forstöðukonur rjómabúa (smjörbúa) er risu víða um land. Í Mjólkurskólanum lærðu stúlkurnar mjólkurmeðferð, um fóðrun kúnna, bókhald og rekstur rjómabúa. Námið var bæði bóklegt og verklegt. Mjólkurskólinn var ein fyrsta menntabraut á sviði matvælafræði hérlendis og ein fyrsta starfsmenntaleið íslenskra kvenna, raunar leið margra stúlkna til frama og sjálfstæðis. Mjólkurskólinn varð því merkur þáttur í jafnréttisbaráttu íslenskra kvenna.

Starf Grönfeldts og nemenda hans stórbætti mjólkurmeðferð og smjörvinnslu hérlendis. Smjörið varð markaðsvara á kröfuhörðum erlendum mörkuðum. Bændur fengu peninga til frekari nýsköpunar, svo sem til jarðabóta og verkfærakaupa. Þeir lærðu líka að vinna saman að markaðssetningu afurða sinna.

Þótt Mjólkurskólinn legðist af svo og flest rjómabúin vegna tímabundinna erfiðleika liðu fá ár þangað til iðnvæðing íslenskrar mjólkurvinnslu með mjólkurbúunum hófst af fullum þunga. Það gerðist á sama grunni og Mjólkurskólinn og rjómabúin höfðu starfað: Með starfsþekkingu, vöruvöndun og samvinnu bænda.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir