Harpa Sif ráðin verslunarstjóri Vínbúðarinnar á Akranesi

Þann 1. september næstkomandi mun Harpa Sif Þráinsdóttir taka við starfi verslunarstjóra Vínbúðarinnar á Akranesi. Hún tekur við því starfi af Guðný Ársælsdóttur sem hafði gegnt því frá því að Vínbúðin tók til starfa á Akranesi fyrir 34 árum. „Mér líst mjög vel á þetta. Allt í allt hef ég starfað hérna í tæp 15 ár. Fyrstu árin vann ég hér með skóla en ég hef starfað sem aðstoðarverslunarstjóri í tíu ár svo ég þekki vel til. Ég er mjög glöð með það að geta tekið við þessu og ég kann á þetta og þekki alla hér. Starfið hérna hefur verið mjög gott og ég tek við góðu búi, það hjálpar,“ segir Harpa Sif.

Harpa segist ekki endilega hafa ætlað sér að starfa svona lengi í Vínbúðinni þegar hún byrjaði. „Þegar ég byrjaði var ég að læra að verða sjúkraliði og útskrifaðist sem slíkur. Ég hafði hugsað mér að vinna við það en það var litla vinnu að fá eftir útskrift svo ég hélt áfram að vinna í Vínbúðinni. Ég hef alltaf kunnað vel við mig hérna og ég sé alls ekki eftir því að hafa ílengst í þessu starfi. Ég hef líka mikinn áhuga á starfinu. Árið 2008 útskrifaðist ég sem vínráðgjafi. Ég hef gaman að því að grúska og pæla í víni og þá aðallega samspili matar og víns,“ segir Harpa.

Harpa segist vera spennt fyrir komandi tímum. „Ég er spennt að takast á við þetta. Þó svo maður þekki vel til hérna getur maður alltaf lært eitthvað nýtt. Þetta verður bara skemmtilegt,“ segir hún að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir