Steinunn Bjarnadóttir var ráðin verslunarstjóri í nýrri Nordic Store verslun í Borgarnesi. Ljósm. arg.

Verslunin Nordic Store opnuð í Borgarnesi

Verslunin Nordic Store var opnuð í Borgarnesi 15. júní síðastliðinn í húsnæði Arionbanka við Digranesgötu. Fyrir eru tvær Nordic Store verslanir, báðar í miðbæ Reykjavíkur og sú þriðja verður opnuð þar á næstunni. Steinunn Bjarnadóttir var ráðin sem verslunarstjóri í Borgarnesi en hún er menntaður grunnskólakennari og var áður að kenna í Grunnskólanum í Borgarnesi. „Ég var spurð hvort ég vildi taka þetta starf að mér og mér leist vel á það og ákvað að slá til og prófa,“ segir Steinunn. „Ég tók mér ársleyfi frá kennslustörfum og ætla að sjá til hvernig mér líkar við þetta. Ég hef mjög gaman að því að kenna en það er líka skemmtilegt að prófa eitthvað alveg nýtt,“ bætir hún við. Hún segir starfið leggjast vel í sig. Steinunn ólst upp í Borgarfirðinum en býr nú í Borgarnesi með Hákoni Halldórssyni og fjórum börnum þeirra.

Steinunn segir opnun verslunarinnar fara rólega af stað en það séu þó alltaf einhverjir að staldra við. „Við erum mest að selja ullarvörur, peysur, húfur, sokka, vettlinga, teppi og slíkt. Auk þess erum við með gærur, annan útifatnað og ýmislegt fleira smálegt. Þetta er þó mest ullarvörur,“ segir Steinunn. Það eru helst erlendir ferðamenn sem versla í Nordic Store enda er margt sér-íslenskt að finna þar. Ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um opnunartíma í versluninni í Borgarnesi. „Núna erum við með opið frá klukkan 10-20 en við erum enn að finna út hvaða opnunartími er bestur. Ef það er eftirspurn fyrir því gætum við vel hugsað okkur að lengja opnunartímann en svo gæti líka farið að við styttum hann,“ segir Steinunn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir