Hollvinasamtök HVE afhentu Heilbrigðisstofnun Vesturlands tvö ný tæki, annars vegar blöðruskanna og hins vegar Connex-CSM – monitor. Hér eru fulltrúar bæði gefenda og þiggjenda; f.v. Guðrún Margrét Halldórsdóttir, Linda Kristjánsdóttir, Rósa Marinósdóttir, Sigríður Eiríksdóttir, Anton Ottesen og Steinunn Sigurðardóttir.

Hollvinasamtök HVE afhentu tvö ný tæki

Hollvinasamtök Heilbrigðisstofnunar Vesturlands afhenti HVE tvö ný tæki við athöfn í síðustu viku sem fram fór á heilsugæslustöðinni í Borgarnesi. Við þetta tækifæri sagði Steinunn Sigurðardóttir formaður hollvinasamtakanna stuttlega frá starfsemi samtakanna og tilgangi þeirra. Hún ræddi um mikilvægi þess að heilbrigðisstofnunin okkar væri vel búin tækjum og búnaði. Að ávarpi loknu afhenti Steinunn Guðrúnu Margréti Halldórsdóttur, deildarstjóra svæfingadeildar, blöðruskanna. Skanninn mun fara á skurð- og svæfingadeild sjúkrahússins á Akranesi en hann er nokkurskonar ómtæki sem getur metið innihald í þvagblöðrunni. Eftir aðgerðir eða deyfingar í hrygg getur þvagblaðran orðið yfirfull, án þess að sjúklingurinn verði þess var, og getur það reynt á nýrun og því verið varasamt. Getur tækið í sumum tilfellum komið í veg fyrir að setja þurfi upp þvaglegg með tilheyrandi óþægindum og sýkingarhættu. Á sjúkrahúsinu á Akranesi er gert mikið af þvagrásaraðgerðum og er tækið því mikilvæg viðbót þar.

 

Gæslutæki

Steinunn afhenti þvínæst Rósu Marinósdóttur, yfirhjúkrunarfræðingi í Borgarnesi, og Lindu Kristjánsdóttur yfirlækni í Borgarnesi, svokallað gæslutæki, Connex-CSM –monitor. Tækið mun verða staðsett á heilsugæslustöðinni í Borgarnesi en það getur fylgst með blóðþrýstingi, súrefnismettun, hita, og púlsi hjá sjúklingum. Hægt er að stilla tækið þannig að það taki stöðuna á sjúklingi reglulega, allt frá mínútu fresti að tveggja klukkustunda fresti. Ef ástand sjúklingsins versnar lætur tækið vita með hljóðmerki sem er gríðarlega mikilvægt þegar læknir er einn að sinna sjúklingi og gæti þurft að skreppa frá. Rósa sagði tækið vera algjöra byltingu fyrir starfsmenn á heilsugæslustöðinni í Borgarnesi. „Þetta er nokkurskonar gjörgæslutæki og því mikið öryggi að fá þetta,“ segir Rósa.

 

Hollvinasamtökin

Hollvinasamtök HVE var stofnað 25. janúar 2014 í þeim tilgangi að safna fyrir sneiðmyndatæki sem svo var afhent HVE í apríl 2015 en þá var brýn þörf á slíku tæki enda hið gamla orðið óstarfhæft. Eftir þá söfnun óskuðu samtökin eftir því við framkvæmdastjórn HVE að fá lista yfir þau tæki sem mest þörf væri fyrir. Efst á þeim óskalista voru þessi tvö tæki sem að framan greinir. Að sögn Steinunnar var ekki sérstök söfnun fyrir þessum tækjakaupum. „Í samtökunum eru rúmlega 300 meðlimir sem borga allir 3000 krónur á ári í félagsgjöld og sá peningur auk afgangs frá söfnuninni fyrir sneiðmyndatækinu dugði fyrir þessum kaupum, en tækin kostuðu rétt um tvær milljónir samtals,“ segir Steinunn og bætir því við að samtökin séu þegar farin að huga að næstu gjöf. Hún segir þau finna fyrir miklum velvilja gagnvart samtökunum og hvetur alla til að skrá sig í þau, enda sé þetta málefni sem snertir okkur öll. Þeir sem hafa áhuga á að gerast meðlimir geta skráð sig inni á www.vesturlandsvaktin.is eða með því að fara á vefsíðu HVE.

Líkar þetta

Fleiri fréttir