
Hlóðu nýjan kirkjugarðsvegg
Fyrr í vikunni lauk hleðslu á nýjum vegg á austurhlið kirkjugarðsins í Reykholti í Borgarfirði. Um talsvert mikla framkvæmd er að ræða þar sem veggurinn í heild er um 80 metra langur. Verktaki var Unnsteinn Elíasson, en við verkið fékk hann til liðs við sig föðurbróður sinn og læriföður, Ara Jóhannesson í Hafnarfirði sem mætti við þriðja mann. Garðveggurinn er listavel gerður, eins og sjá má á myndinni, og mun prýða staðinn nú þegar styttist í hátíðarhöld í Reykholti í tilefni tuttugu ára vígsluafmælis Reykholtskirkju og afmælis ferðaþjónustu í kirkjubyggingunni og Snorrastofu. Vígsluafmælisins verður minnst á kirkjudegi á lokadegi Reykholtshátíðar sunnudaginn 24. júlí næstkomandi.