Eftir undirritun í dag.

Þróunarfélag Grundartanga stofnað

Fyrr í dag var undirritaður stofnsamningur Þróunarfélags Grundartanga ehf. Aðilar samningsins eru; Akraneskaupstaður, Borgarbyggð, Faxaflóahafnir sf., Hvalfjarðarsveit, Reykjavíkurborg og Skorradalshreppur. Stofnun félagsins hefur legið í loftinu í töluverðan tíma og var viljayfirlýsing undirrituð í nóvember 2014. Þegar viljayfirlýsingin var undirrituð var Kjósahreppur í hópi með þeim aðilum sem undirrituðu samninginn í dag en þeir drógu sig úr verkefninu í mars 2015.

Þróunarfélagi Grundartanga er ætlað að vinna að framfaramálum á Grundartanga í Hvalfjarðarsveit með það að markmiði að stuðla að uppbyggingu á atvinnustarfsemi á Grundartanga og í aðildarsveitarfélögum. Í hluthafasamkomulaginu segir „Hlutverk félagsins er að efla og bæta skilyrði fyrir stofnun og rekstur fyrirtækja á Grundartanga, með áherslu á umhverfisvæna starfsemi og bætta nýtingu hráefna sem tryggir sem best jafnvægi milli nýtingar og náttúruauðlinda og verndunar þeirra.“

Félagið skal einnig móta framtíðarsýn fyrir svæðið með umhverfissjónarmið að leiðarljósi, ásamt því að taka saman og kynna tölfræðilegar upplýsingar sem varða lýðfræði umhverfismál og aðrar upplýsingar sem svæðið varða. Félagið mun kynna svæðið sem valkost fyrir framleiðslu og þjónustu fyrirtæki og skoða möguleika á samstarfi við erlenda aðila með umhverfisvernd að leiðarljósi.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir