Kassabílarallý á bæjarhátíðinni Heim í Búðardal 2014. Ljósm. bae.

Heim í Búðardal um helgina

Bæjarhátíðin Heim í Búðardal verður haldin um næstu helgi, dagana 8. – 10. júlí. „Þetta er fyrst og fremst fjölskylduhátíð þar sem lögð er áhersla á að hafa nóg í boði fyrir alla fjölskylduna,“ segir Svana Hrönn Jóhannsdóttir íþrótta- og tómstundafulltrúi í Dalabyggð í samtali við Skessuhorn. „Það verður allt frítt sem hátíðin býður uppá, nema dansleikurinn á laugardagskvöldinu en hann er hluti af fjáröflun fyrir UDN.“

Hátíðarhöld hefjast á föstudeginum klukkan 16 þegar Einar Mikael töframaður verður með töfrabragðanámskeið í Dalabúð. „Við verðum svo með ótrúlega skemmtilegan fjölskylduratleik á föstudeginum þar sem fólk á að safna stigum í Búðardal. Það verða vonandi margir sem taka þátt í því,“ segir Svana. Þá verður boðið upp á kjötsúpu í heimahúsum og lýkur kvöldinu á kvöldvöku fyrir alla fjölskylduna í Dalabúð.

Gleðin heldur áfram allan laugardaginn með þéttri dagskrá frá morgni og fram á nótt. Á laugardagsmorgninum verður boðið upp á morgunverð í Dalabúð þar sem gestir hátíðarinnar geta komið saman og hist. Eftir morgunverðinn mæta Solla stirða og Íþróttaálfurinn á svæðið. „Hápunkturinn er líklega Vestfjarðarvíkingurinn en það verður keypt í tveimur lokagreinum og kemur því í ljós hver sigrar,“ segir Svana. Einnig verður veltubíllinn á svæðinu, kassabílarallý, leirlistarsýning verður opnuð, systurnar Steinunn og Dagný Matthíasdætur verða með ljósmynda- og myndlistarsýningu og Slökkvilið Dalabyggðar setur upp froðurennibraut. Í lok kvöldsins stígur hljómsveitin Goðsögn á svið í Dalabúð og leikur fyrir dansi fram á nótt.

Endapunktur hátíðarinnar verða skemmtilegir tónleikar á Silfurtúni á sunnudeginum. Það verður því líf og fjör í bænum alla helgina og tilvalið fyrir heimamenn, brottflutta og aðra gesti að kíkja í heimsókn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Stangveiðar með drónum

Þegar blaðamaður Skessuhorns renndi niður Facebook í morgun rakst hann á athyglisverða auglýsingu. Þar auglýsti Suður-Afríska fyrirtækið Gannet búnað fyrir... Lesa meira