
Grundarfjarðarbær hyggst leita réttar síns í hitaveitumálum
Árið 2005 gerði Grundarfjarðarbær samning við Orkuveitu Reykjavíkur þess efnis að OR myndi hitaveituvæða Grundarfjarðarbæ gegn því að fá að yfirtaka Vatnsveitu Grundarfjarðar. Grundarfjarðarbær efndi sinn hluta samningsins 1. janúar 2006 þegar kaup OR á Vatnsveitu Grundarfjarðar gengu í gegn. Hálft ellefta ár er því frá því að Grundarfjarðarbær efndi sinn hluta samningsins en enn bólar ekkert á hitaveitu í Grundarfirði. 14. júní síðastliðinn var haldinn fundur í Ráðhúsi Grundarfjarðar með fulltrúum bæjarstjórnar Grundarfjarðar og Orkuveitu Reykjavíkur/Veitum ohf. Á fundinum kölluðu fulltrúar bæjarstjórnar eftir efndum Orkuveitunnar en lítið kom út úr þeim fundi. Á grundvelli þess að Grundarfjarðarbær telur OR ekki ætla að standa við samninginn frá 2005 sér bærinn ekki aðrar leiðir færar en að leita réttar síns með aðstoð lögmanns. „Það hefur ekkert gerst í þessum málum frá árinu 2008 að hálfu Orkuveitu Reykjavíkur. Við höfum fundað ítrekað og ýtt eftir að eitthvað gerist í málinu en það virðist vera lítill áhugi fyrir því hjá OR,“ segir Þorsteinn Steinsson bæjarstjóri Grundarfjarðarbæjar í samtali við Skessuhorn.
Nánar er fjallað um málið í Skessuhorni vikunnar.