
Myndasyrpa – Skotthúfan í Stykkishólmi tókst mjög vel
Um síðustu helgi var þjóðbúningahátíðin Skotthúfan haldin í Stykkishólmi í þrettánda skipti. Upphaflega var fólk hvatt til að mæta í þjóðbúningi í Norska húsið – Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla og þiggja þar kaffi og pönnukökur. Var þátttaka ávalt mjög góð svo tekin var sú ákvörðun fyrir tveimur árum að stækka hátíðina og nú nær hún yfir heila helgi. Í ár var þemað Jörundur Hundadagakonungur og byrjaði hátíðin á því að horft var á sjónvarpsleikritið „Þið munið hann Jörund“ á Eldfjallasafninu. Meðal þess sem boðið var uppá á hátíðinni var ráðgjöf varðandi þjóðbúninga, þjóðdansasýning hjá Þjóðdansahópnum Sporinu og flutt voru tvö erindi um Jörund í gömlu kirkjunni og spiluð tónlist sem tengdist honum. Hátíðin tókst mjög vel og var þátttaka mjög góð. „Það voru rúmlega 40 manns sem mættu í þjóðbúningi, mest konur en líka nokkrir karlar. Dagskráin gekk líka mjög vel og var þetta heilt yfir mjög góð helgi,“ segir Hjördís Pálsdóttir safnastjóri í Norska húsinu – Byggðasafni Snæfellinga og Hnappdæla.
- Skipuleggjendur hátíðarinnar
- Ungt par í sínu fínasta
- Virðulegar konur
- Spilað og sungið fyrir gesti.
- Lágspil og bassi.
- Setið til borðs í heldri stofunni.
- Fulltrúar yngri kynslóðarinnar
- Danshópurinn Sporið.
- Útsaumur
- Fallegir búningar voru auk þess til sýnis