Graf sem sýnir í hvaða sveitarfélög fasteignaeigendur greiða hæstu gjöldin. Heimild: Byggðastofnun.

Hæstu fasteignagjöldin á landinu eru í Borgarnesi

Byggðastofnun hefur fengið Þjóðskrá Íslands til að reikna út fasteignamat og fasteignagjöld á sambærilegri fasteign á nokkrum þéttbýlisstöðum á landinu eins og undanfarin ár. Viðmiðunareignin er einbýlishús sem er ríflega 161 fermetri að grunnfleti og á um 800 fermetra lóð. Gjöldin eru nú hæst í Borgarnesi, eða 351 þúsund krónur á slíka eign. Næsthæst eru þau í Keflavík 344 þúsund og þriðju hæst á Húsavík 330 þúsund. Í fjörða og fimmta sæti eru síðan Stykkishólmur og Grundarfjörður. Akranes er í tólfta sæti með um 275 þúsund krónur.

Á síðasta ári voru gjöldin upp á 329 þúsund hæst á Húsavík. Lægstu gjöldin líkt og í fyrra eru á Vopnafirði 180 þúsund en voru 167 þúsund árið á undan. Mesta hækkun fasteignagjalda á milli áranna 2014 og 2015 var um 23% eða 59 þúsund krónur í Borgarnesi. Þetta árið er 25% hækkun eða sem nemur 55 þúsund krónum á Siglufirði þar sem gjöldin lækkuðu mest í fyrra. Nú lækka gjöldin mest á Blönduósi. Fasteignagjöldin eru reiknuð út samkvæmt núgildandi fasteignamati sem gildir frá 31. desember 2015 og samkvæmt álagningarreglum ársins 2016 eins og þær eru í hverju sveitarfélagi. Til að forðast skekkjur var útreikningur fasteignagjaldanna sendur á viðkomandi sveitarfélag og óskað eftir að athugasemdir yrðu gerðar ef um skekkjur væri að ræða. Tekið hefur verið tillit til þeirra ábendinga sem bárust.

Mest hefur fasteignamatið hækkað milli ára í Suður-Þingholtunum í Reykjavík, um 11,1% og á Selfossi um 10,4%. Það lækkar hins vegar á þremur stöðum, um 5,1% í Grindavík,  um 3,0% á Hólmavík og um 2,4% á Blönduósi. Tekið er fram að horft er til allra svokallaðra fasteignagjalda, það er fasteignaskatts, lóðarleigu, fráveitugjalds, vatnsgjalds og sorpgjalda. Meðaltalið á höfuðborgarsvæðinu gefur ekki hæstu fasteignagjöldin. Mismunandi álagningarreglur einstakara sveitarfélaga skipta þar mestu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir