Fyrri sláttur víða vel á veg kominn

Tíðarfar það sem af er sumri hefur verið hagfellt bændum. Vorið var milt og hlýindi í júní settu góðan vöxt í allan gróður. Bændur víða um Vesturland eru nú langt komnir með fyrri slátt og sumir búnir. Hey eru því góð og uppskera einnig. Margir þeirra búast við að slá tún tvisvar eða jafnvel þrisvar, en veður næstu vikurnar ræður auðvitað mestu þar um. Meðfylgjandi mynd er tekin á grösugum sléttum á Norðurreykjum í Hálsasveit í Borgarfirði. Handan Hvítar sést heim að Sámsstöðum í Hvítársíðu þar sem einnig var unnið í heyjum þegar myndin var tekin. „Það er góð tilfinning að óttast ekki heyleysi,“ segir Kolbrún Sveinsdóttir bóndi á Norðurreykjum, sem jafnframt tók þessa mynd af fallegum görðum sem hún hafði nýlokið við að raka saman. Eftir rúllun á þessu heyi lauk þar með fyrri slætti hjá þeim Bjartmari og Kolbrúnu á Norðurreykjum. Spáð er þurrki á Vesturlandi næstu tvo daga.

Líkar þetta

Fleiri fréttir