Gáfu Jaðri kaffistell og tilheyrandi búnað

Síðastliðinn föstudag færði Kvenfélag Ólafsvíkur Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Jaðri að gjöf kaffistell fyrir 60 manns ásamt tíu kökufötum og tíu rjómakönnum. Elfa Eydal Ármannsdóttir formaður kvenfélagsins afhenti gjöfina ásamt stjórn og varastjórn félagsins. Inga Jóhanna Kristinsdóttir forstöðukona heimilisins veitti gjöfinni viðtöku. Sagði hún við það tækifæri að það væri ómetanlegt fyrir Jaðar að eiga svona góða að og þakkaði hlýhug í garð heimilisins, en því hafa reglulega borist góðar gjafir frá félagasamtökum í bæjarfélaginu. Talaði hún einnig um að þetta kæmi sér vel þegar til dæmis heimilisfólk ætti stórafmæli og halda þyrfti veislur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir