Umferðareyjurnar á Hellisbraut sem mynda fyrstu hraðahindrunina á Reykhólum. Enn á eftir að skrúfa hámarkshraðaskiltin á eyjurnar, en reikna má með að starfsmenn Vegagerðarinnar gangi í málið innan tíðar. Ljósm. Ágúst Már Gröndal.

Fyrsta hraðahindrunin komin upp á Reykhólum

Sveitarstjórn Reykhólahrepps afgreiddi á fundi sínum 23. júní síðastliðinn erindi Bjarkar Stefánsdóttur og Herdísar Ernu Matthíasdóttur, íbúa á Reykhólum, um umferðaröryggi gangandi vegfarenda í Reykhólahreppi. Samþykkti sveitarstjórn samhljóða að festa kaup á tveimur umferðareyjum til að mynda eina hraðahindrun á Hellisbraut á Reykhólum, en sá vegur heyrir undir sveitarfélagið. Þá var sveitarstjóra enn fremur falið að koma erindinu á framfæri við Vegagerðina og kanna möguleika þess að koma fyrir hraðahindrun á Karlseyjarvegi þar sem hann liggur við íbúabyggð, en Karlseyjarvegur heyrir undir Vegagerðina. Leyfilegur hámarkshraði á umræddum stöðum er 35 km/klst. „Umferðareyjunum hefur þegar verið komið fyrir á Hellisbraut. Þær voru pantaðar daginn eftir fundinn og strax farið í að koma þeim á sinn stað,“ segir Ingibjörg Birna Erlingsdóttir sveitarstjóri í samtali við Skessuhorn. Þar með er komin upp fyrsta hraðahindrunin á Reykhólum og innan skamms kemur í ljós hvenær næsta hindrun verður sett upp. „Vegagerðin er búin að koma í vettvangsferð og ætlar að skila niðurstöðum bráðlega varðandi Karlseyjarveg,“ segir hún. Vegagerðin vinnur samkvæmt samgönguáætlun og þess því ekki að vænta að sú hraðahindrun verði sett upp á þessu ári. Ingibjörg Birna kveðst hins vegar vonast til þess að verkefnið komist inn á samgönguáætlun næsta árs.

Líkar þetta

Fleiri fréttir