Fjögur smáhýsi af ellefu eru þegar risin. Ljósm. af.

Smáhýsi reist á Arnarstapa og þjónustumiðstöð á teikniborðinu

Snjófell ehf. sem á og rekur Arnarbæ á Arnarstapa er um þessar mundir að koma fyrir smáhýsum á lóð fyrirtækisins. Nú eru komin upp fjögur smáhýsi sem verða tilbúin um næstu mánaðamót. Sverrir Hermannson er eigandi og framkvæmdastjóri Snjófells. Hann sagði í samtali við Skessuhorn að alls verði ellefu smáhýsi reist. „Þetta eru heilsárshús og verða öll komin í gagnið í haust.“ Hann bætir við að hann hafi teiknað og látið smíða þessi hús sjálfur eftir eigin hugmyndum en hvert hús er 28 fermetrar að stærð. Í framhaldi af þessu verður bætt við 300 fermetra þjónustumiðstöð með veitingasölu. Auk þess verða sett upp tuttugu salerni. Stefnt er á að þjónustumiðstöðin verði tekin í notkun í apríl 2017.

„Öll mín orka fer nú í að gera Snjófell að öflugu fyrirtæki og mun ég leggja áherslu á uppbyggingu fyrirtæksins.“ Sverrir hefur selt Hótel Ólafsvík og hótelið sem hann rak á Hellnum. Hótelið í Stykkishólmi er einnig í söluferli, en þessi hótel hafa öll verið rekin í hafni Hringhótels. Að lokum getur Sverrir þess að ferðamannastraumur á Arnarstapa hafi stóraukist og horfi hann björtum augum til framtíðarinnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir