Þráinn Haraldsson fyrir framan kapelluna í Vatnaskógi. Ljósm. bþb.

„Ég ákvað það eftir að hafa unnið hérna að ég vildi verða prestur“

Árið 1923 ákváðu nokkrir drengir að ganga frá Reykjavík og til Vatnaskógar í Svínadal til þess að tjalda. Þessir drengir voru á vegum KFUM og KFUK. 93 árum síðar eru sumarbúðirnar enn í fullum gangi og hundruð drengja sækja sumarbúðirnar ár hvert. Sumarbúðirnar eru aðallega fyrir stráka og þeim skipt í flokka eftir aldri. Yngstu krakkarnir eru níu ára og elstu sautján en í elsta flokknum, sem er 14 – 17 ára, eru einnig stelpur. Einnig koma fermingarbörn í Vatnaskóg á veturna. Í liðinni viku settist Þráinn Haraldsson prestur á Akranesi í stól forstöðumanns í Vatnaskógi en þó bara þá einu viku. „Ég kom aldrei hingað sem barn, var aldrei í sumarbúðunum. Ég var reyndar alltaf á leiðinni en það varð aldrei neitt úr því. Ég byrja síðan að vinna hérna þegar ég var 15 ára og var þá aðstoðarmaður í flokki. Það er bara sjálfboðavinna og margir sem byrja á því að vera hér sem aðstoðarmenn verða síðan foringjar í flokki þegar þeir eru orðnir 18 ára og mega fara að starfa hér. Ég var einn af þeim og byrjaði að starfa hérna í framhaldsskóla. Ég vann hérna lengi og ber virkilega sterkar taugar til Vatnaskógar. Það var frábært að vinna hérna á sumrin,“ segir Þráinn.

„Ég ákvað það eftir að hafa unnið hérna að ég vildi verða prestur. Ég hafði alltaf verið trúaður og tekið þátt í ýmsu kristilegu starfi en hafði aldrei hugleitt það alvarlega að starfa á þeim vettvangi fyrr en eftir árin mín í Vatnaskógi. Í fyrsta lagi sá ég það að ég vildi fá að miðla boðskap Jesú Krists en einnig vildi ég fá að starfa með fólki. Að vinna á svona stað er mjög gefandi. Það gefur mér mikið að sjá hvað strákarnir hafa gaman að því að vera hérna og sjá þá njóta sín í sveitinni. Það getur verið erfitt að fara að heiman svona í heila viku og sumir fá mikla heimþrá en það er mikill sigur þegar strákarnir komast í gegnum vikuna og um leið mjög þroskandi. Hér er lagt upp með að strákarnir njóti sín í leik og starfi,“ segir Þráinn.

Nánar var rætt við sr. Þráinn í síðasta Skessuhorni.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir