Dagur íslenska fjárhundsins verður 18. júlí

Haldið verður upp á dag íslenska fjárhundsins mánudaginn 18. júlí nk. Meðal þess sem boðið verður uppá er málþing sem haldið verður í Þjóðminjasafninu í Reykjavík til heiðurs Íslandsvininum Mark Watson, en hann var fæddur þennan dag árið 1906. Á sínum tíma heillaðist Watson af íslenska fjárhundinum og ákvað að bjarga honum frá útrýmingu og er alls óvíst að við ættum þjóðarhund ef ekki væri fyrir hans tilverknað. Fæðingardagur Watson var því valinn sem dagur íslenska fjárhundsins. Fundarstjóri á málþinginu verður Guðni Ágústsson. Þórhildur Bjartmarz fv. formaður HRFÍ flytur erindi, fjallað verður um bjargvættinn Mark Watson í samantekt Sigríðar Sigurðardótturr safnstjóra í Glaumbæ í Skagafirði. Þá flytur Albína Hulda Pálsdóttir dýrabeinafornleifafræðingur erindi um landnámshunda og kjölturakka. Málþingið hefst kl. 12 og lýkur um kl. 13 og eru allir áhugasamir eru velkomnir. Því má við þetta bæta að fjallað verður um íslenska fjárhunda í Grundarfirði um kvöldið.

Líkar þetta

Fleiri fréttir