Helga Guðrún er rauðhærðasti Íslendingurinn 2016. Hún fær fer fyrir tvo til Dublin að launum, ferð með Gaman Ferðum.

Helga Guðrún er rauðhærðust og Vesturgata 147 best skreytt

Meðal árlegra viðburða á Írskum dögum á Akranesi, allt frá því þeir voru fyrst haldnir fyrir 17 árum, er keppnin um Rauðhærðasta Íslendinginn. Alls tóku 34 þátt í keppninni að þessu sinni. Það var Helga Guðrún Jónsdóttir sem vann titilinn. Helga Guðrún verður ellefu ára síðar í mánuðinum og býr í Keflavík. Hún kom ásamt fjölskyldu sinni á Akranes til að taka þátt í keppninni en hún hefur fylgst með keppninni í mörg ár. Helga fær að launum ferð til Írlands fyrir tvo með Gaman Ferðum. Í dómnefnd voru Stefanía Sigurðardóttir og Inga Hrönn Óttarsdóttir frá Mozart Hársnyrtistofu og var dómnefnd einhuga um valið.

Einnig voru veitt verðlaun fyrir írskasta húsið. Samkeppnin var hörð enda mikill fjöldi húsa sem skráði sig til leiks. Verðlaunin fékk fjölskyldan að Vesturgötu 147 og fá þau einnig ferð fyrir tvo til Dublinar með Gaman Ferðum.

Mikill mannfjöldi var staddur á Akranesi í gær þegar dagskrá bæjarhátíðarinnar stóð sem hæst. Segja má að hápunktur hátíðarinnar hafi verið Brekkusöngurinn á Jaðarsbökkum þar sem þúsundir komu saman á ágætu veðri. Ingó Veðurguð var söngstjóri þar. Að því loknu héldu margir rakleiðis á Lopapeysuna við Akraneshöfn, eitt fjölmennasta sveitaball ársins hér á landi. Þar voru leynigestirnir sjálfir Paparnir sem komu sérstaklega saman af þessu tilefni. Að sögn Hallgríms Ólafssonar verkefnisstjóra fór skemmtanahald vel fram í gærkveldi og bærinn hefur iðað af lífi alla helgina. Lokapunkturinn á hátíðarhöldin verður svo bein útsending frá leik Íslands og Frakklands í átta liða úrslium EM. Leikurinn verður sýndur á risaskjá í Skógræktinni Garðalundi og hefst klukkan 19:00.

Húsið við Vesturgötu 147 er best skreytta húsið og fá húsráðendur ferð fyrir tvo til Dublin að launum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir