Útlendingastofnun tekur sex íbúðir á leigu á Bifröst

Útlendingastofnun hefur náð samningum við Kiðá ehf. um leigu á sex íbúðum á nemendagörðunum á Bifröst í Borgarfirði. Samningurinn er til þriggja mánaða og er til reynslu. Ekki liggur fyrir hve lengi hver fjölskylda mun dvelja á Bifröst og fer það aðallega eftir því hve lengi mál viðkomandi verða til meðferðar hjá yfirvöldum. Íbúðirnar sem leigðar hafa verið eru hugsaðar fyrir hælisleitendur sem Útlendingastofnun veitir þjónustu á meðan umsóknir þeirra um hæli eru til afgreiðslu hjá íslenskum yfirvöldum. Fyrsti hópurinn flutti á Bifröst í gær og er það fólk sem kemur frá Albaníu og Sómalíu en engin ákvörðun liggur fyrir um af hvaða þjóðerni síðari hópurinn verður. Allir þeir sem munu dvelja á Bifröst eru fjölskyldufólk.

Ástæða þess að Bifröst varð fyrir valinu segir Útlendingastofnun vera þá að stofnunin er í stöðugri leit að húsnæði fyrir hælisleitendur og hefur sú leit borið lítinn árangur enn sem komið er. Á árinu hafa verið haldin tvö útboð til að finna húsnæði fyrir 100 hælisleitendur. Í því fyrra bárust fimm tilboð en ekkert þeirra hentaði og því var ráðist í annað útboð sem verið er að vinna úr. Á Bifröst stóð til boða hentugt húsnæði og því var gert samkomulag um að leigja það til reynslu.

Margrét Vagnsdóttir er tengiliður milli íbúa Bifrastar og Útlendingastofnunar. Hún segir að íbúar séu almennt jákvæðir fyrir komu fólksins á staðinn. „Auðvitað koma upp efasemdaraddir og spurningar og við reynum hvað getum að svara þeim og upplýsa. Við héldum t.d. íbúafund um miðjan júní til þess að eiga samtal við íbúa um þetta. Það er samt almenn ánægja miðað við það sem ég hef heyrt,“ sagði Margrét í samtali við Skessuhorn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir