Svipmynd úr fyrsta leik Skagans í sumar.

Skagakonur töpuðu stórt gegn Stjörnunni

Sjöttu umferð Pepsi deildar kvenna í fótbolta lauk í gær þegar Stjarnan og ÍA mættust í Garðabæ. Fyrir leikinn var Stjarnan í öðru sæti með þrettán stig en ÍA í því síðasta með aðeins eitt. Skagakonur áttu fá svör við öflugum sóknarleik Stjörnunnar og lauk leiknum með sex marka sigri Stjörnunnar. Leikurinn var fremur bragðdaufur fyrsta hálftímann en Skagakonur vörðust vel þann tíma. Það var svo á 33. mínútu sem landsliðskonan Harpa Þorsteinsdóttir skoraði fyrsta mark Stjörnunnar. Einbeitingarleysi í vörninni þess valdandi að Harpa Þorsteinsdóttir slapp ein í gegn og skoraði. Á 41. mínútu bætti Stjarnan við marki, þar var að verki Katrín Ásbjörnsdóttir. Donna Key Henry átti fínt skot að marki Skagamanna sem Ásta Vigdís í marki Skagamanna varði og Katrín náði að fylgja eftir og skora. Ekki voru skoruð fleiri mörk í fyrri hálfleik og Stjörnukonur fóru því með tveggja marka forystu inn í hálfleikinn.

Á 49. mínútu átti Harpa Þorsteinsdóttir fínan sprett sem endaði með því að hún renndi boltanum á Katrínu sem bætti við sínu öðru marki. Fjórum mínútum síðar fullkomnaði Katrín síðan þrennuna, markið var ekki ósvipað því þriðja en að þessu sinni var það Donna Key Henry sem renndi boltanum á Katrínu. Á 58. mínútu var dæmd vítaspyrna þegar Ásta Vigdís braut á Donnu Key. Vítaspyrnuna tók markavélin Harpa Þorsteinsdóttir og skoraði af öryggi. Tveimur mínútum síðar fór Harpa illa með vörn Skagakvenna og skoraði með föstu skoti. Önnur þrenna leiksins því fullkomnuð.

Ekki var meira skorað í leiknum og lokatölur því 6 – 0. Stjarnan endurheimti toppsætið með sigrinum en Skagakonur sitja á botninum með eitt stig.

Næsti leikur ÍA er gegn Val á Akranesvelli á fimmtudag klukkan 18:00.

Líkar þetta

Fleiri fréttir