Pennavinkonur í 65 ár, Dorothy Bartley og Guðrún Ormsdóttir.

Mynduðu pennavinskap fyrir 65 árum sem aldrei hefur rofnað

„Þetta byrjaði árið 1952, þegar ég var 14 ára. Þá kom enskukennarinn okkar inn í kennslustund með nokkra miða með nöfnum á. Hann sagði okkur að það væri sniðugt fyrir okkur að skrifast á við krakka á Englandi til að ná enskunni betur. Við drógum svo miða og ég fékk Dorothy,“ segir Guðrún Ormsdóttir um það hvernig hún komst í kynni við Dorothy Bartley, pennavinkonu sína til 65 ára. „Ég er Snæfellingur og verð það alltaf,“ segir Guðrún og hlær. „Ég flutti hingað í Borgarnes þegar ég var átta ára og bjó hér þar til ég flutti vestur í Laugargerði 27 ára gömul þar sem ég bjó í sex ár. Þá bjó líka ég á Hvolsvelli í rúmlega 40 ár en flutti aftur í Borgarnesi þegar ég komst að hér í Brákarhlíð,“ segir hún.

 

Næsta kynslóð einnig farin að skrifast á

Guðrún og Dorothy tengjast sterkum vinaböndum og hafa fylgst að í gegn um lífið, þó þær hafi aðeins tvisvar sinnum hist. Fyrst fyrir um þrjátíu árum þegar Dorothy kom með eiginmanni sínum til að heimsækja konuna sem hún hafði skrifast á við frá því hún var unglingur. „Þau hjónin komu í heimsókn til okkar voru í eina viku. Þetta var um páskana og það snjóaði svo við gátum ekki sýnt þeim mikið en við fórum þó aðeins um landið með þeim. En þau voru líka fyrst og fremst að heimsækja okkur en ekki landið,“ sagði Guðrún og brosti. Þær hittust svo í annað skipti nú fyrr í júní þegar Dorothy kom með manninum sínum, elsta syni og tengdadóttur. „Hún vildi heimsækja mig einu sinni enn. Ég gat ekki tekið á móti þeim hér í Brákarhlíð svo þau gistu hjá Kristínu dóttur minni. Kristín er búin að vera í miklu sambandi við tengdadóttur Dorothy í gegnum netið. Ég fæ því oft fréttir af Dorothy í gegn um Kristínu. Það var einmitt einn daginn sem Kristín kom til mín og sagðist sko aldeilis hafa fréttir að færa mér. Það voru þær fréttir að Dorothy væri að koma aftur í heimsókn,“ segir Guðrún og brosir. „Þegar þau svo komu heim til Kristínar var eins og hún væri bara ein af okkur,“ bætir hún við.

Sjá nánar í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir